1

Drottinn kallaði á Móse og talaði við hann úr samfundatjaldinu og mælti:
"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar einhver af yður vill færa Drottni fórn, þá skuluð þér færa fórn yðar af fénaðinum, af nautum og sauðum.
Sé fórn hans brennifórn af nautum, skal það, er hann fórnar, vera karlkyns og gallalaust. Skal hann leiða það að dyrum samfundatjaldsins, svo að hann verði Drottni velþóknanlegur.
Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð brennifórnarinnar, að hún afli honum velþóknunar og friðþægi fyrir hann.
Síðan skal hann slátra ungneytinu frammi fyrir Drottni. En synir Arons, prestarnir, skulu fram bera blóðið, og skulu þeir stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið, sem stendur við dyr samfundatjaldsins.
Þá flái hann brennifórnina og hluti hana sundur.
En synir Arons, prestarnir, skulu gjöra eld á altarinu og leggja við á eldinn.
Og synir Arons, prestarnir, skulu raða stykkjunum, höfðinu og mörnum ofan á viðinn, sem lagður er á eldinn, sem er á altarinu.
En innýflin og fæturna skal þvo í vatni, og skal presturinn brenna það allt á altarinu til brennifórnar, eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin.
Sé fórnargjöf sú, er hann fram ber til brennifórnar, af sauðfénaði, af sauðkindum eða geitum, þá skal það, er hann fórnar, vera karlkyns og gallalaust.
Og skal hann slátra því við altarið norðanvert frammi fyrir Drottni, en synir Arons, prestarnir, skulu stökkva blóðinu úr því utan á altarið allt í kring.
Síðan skal hann hluta það sundur, og skal presturinn raða stykkjunum ásamt höfðinu og mörnum ofan á viðinn, sem lagður er á eldinn, sem er á altarinu.
En innýflin og fæturna skal þvo í vatni, og skal presturinn fram bera það allt og brenna á altarinu. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.
Vilji hann færa Drottni brennifórn af fuglum, þá taki hann til fórnar sinnar turtildúfur eða ungar dúfur.
Skal presturinn bera fuglinn að altarinu og klípa af höfuðið og brenna það á altarinu, en blóðið skal kreista út á altarishliðina.
Og hann skal taka sarpinn með fiðrinu á og kasta honum við austurhlið altarisins, þar sem askan er látin.
Og hann skal rífa vængina frá, en þó eigi slíta þá af, og skal presturinn brenna hann á altarinu, ofan á viðnum, sem lagður er á eldinn. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.

10

Nadab og Abíhú, synir Arons, tóku hvor sína eldpönnu og létu eld í þær og lögðu reykelsi ofan á og báru fram fyrir Drottin óvígðan eld, sem hann eigi hafði boðið þeim.
Gekk þá eldur út frá Drottni og eyddi þeim, og þeir dóu frammi fyrir Drottni.
Þá sagði Móse við Aron: "Nú er það fram komið, sem Drottinn sagði: Heilagleik minn vil ég sýna á þeim, sem nálægjast mig, og birta dýrð mína frammi fyrir öllum lýð." Og Aron þagði.
Móse kallaði á Mísael og Elsafan, sonu Ússíels, föðurbróður Arons, og sagði við þá: "Komið og berið burt úr helgidóminum frændur ykkar út fyrir herbúðirnar."
Og þeir komu og báru þá í kyrtlum þeirra út fyrir herbúðirnar, eins og Móse hafði sagt.
Og Móse sagði við Aron og við Eleasar og Ítamar, sonu hans: "Þér skuluð eigi láta hár yðar flaka, eigi heldur sundur rífa klæði yðar, að þér ekki deyið og hann reiðist ekki öllum söfnuðinum. En bræður yðar, allur Ísraelslýður, gráti yfir þeim eldi, sem Drottinn hefir kveikt.
Og eigi skuluð þér fara út fyrir dyr samfundatjaldsins, ella munuð þér deyja, því að smurningarolía Drottins er á yður." Og þeir gjörðu sem Móse bauð.
Drottinn talaði við Aron og sagði:
"Hvorki skalt þú né synir þínir drekka vín eða áfengan drykk, þegar þér gangið inn í samfundatjaldið, svo að þér deyið ekki. Það er ævarandi lögmál hjá yður frá kyni til kyns.
Og þér skuluð gjöra greinarmun á því, sem er heilagt og óheilagt, og á því, sem er hreint og óhreint.
Og þér skuluð kenna Ísraelsmönnum öll þau lög, er Drottinn hefir gefið þeim fyrir Móse."
Móse sagði við Aron og þá Eleasar og Ítamar, sonu hans, er eftir voru á lífi: "Takið matfórnina, sem eftir er af eldfórnum Drottins, og etið hana ósýrða hjá altarinu, því að hún er háheilög.
Og þér skuluð eta hana á helgum stað, því að hún er hinn ákveðni hluti þinn og sona þinna af eldfórnum Drottins. Því að svo er mér boðið.
En bringuna, sem veifa skal, og lærið, sem fórna skal, skuluð þér eta á hreinum stað, þú og synir þínir og dætur þínar með þér, því að þetta er sá ákveðni hluti, sem þér er gefinn og sonum þínum af heillafórnum Ísraelsmanna.
Lærið, sem fórna skal, og bringuna, sem veifa skal, skulu þeir fram bera ásamt mörstykkja-eldfórnunum til þess að veifa því til veififórnar frammi fyrir Drottni. Síðan skalt þú fá það og synir þínir með þér, sem ævinlega skyldugreiðslu, eins og Drottinn hefir boðið."
Og Móse leitaði vandlega að syndafórnarhafrinum, og sjá, hann var upp brenndur. Þá reiddist hann Eleasar og Ítamar, sonum Arons, er eftir voru á lífi, og sagði við þá:
"Hvers vegna átuð þið ekki syndafórnina á helgum stað? Því að hún er háheilög og hann hefir gefið ykkur hana til þess að burt taka misgjörð safnaðarins og friðþægja fyrir þá frammi fyrir Drottni.
Sjá, blóð hennar hefir ekki verið borið inn í helgidóminn. Þið áttuð þó að eta hana á helgum stað, eins og ég hafði boðið."
En Aron sagði við Móse: "Sjá, í dag hafa þeir fram borið syndafórn sína og brennifórn fyrir Drottin, og mér hefir slíkt að höndum borið. Hefði ég nú etið syndafórnina í dag, mundi Drottni hafa þóknast það?"
Og er Móse heyrði þetta, lét hann sér það vel líka.

11

Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði við þá:
"Talið til Ísraelsmanna og segið: Þessi eru þau dýr, er þér megið eta af öllum ferfættum dýrum, sem eru á jörðinni:
Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta.
Af þeim, sem jórtra og klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta: Úlfaldann, því að hann jórtrar að sönnu, en er eigi klaufhæfður; hann sé yður óhreinn;
stökkhérann, því að hann jórtrar að sönnu, en hefir eigi klaufir; hann sé yður óhreinn;
hérann, því að hann jórtrar að sönnu, en hefir eigi klaufir; hann sé yður óhreinn;
og svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, og þær alklofnar, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint.
Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta. Þau skulu vera yður óhrein.
Af lagardýrum megið þér eta þessi: Öll lagardýr, sem hafa sundugga og hreistur, hvort heldur er í sjó eða ám, megið þér eta.
En af öllu því, sem kvikt er í vötnunum, og af öllum lifandi skepnum, sem eru í vötnunum, séu öll þau dýr í sjó eða ám, sem eigi hafa sundugga og hreistur, yður viðurstyggð.
Viðurstyggð skulu þau vera yður. Ekki skuluð þér eta kjöt þeirra, og við hræjum þeirra skal yður stugga.
Öll lagardýr, sem ekki hafa sundugga og hreistur, skulu vera yður viðurstyggð.
Af fuglunum skal yður stugga við þessum, - þér skuluð eigi eta þá, þeir eru viðurstyggð -: örninn, skegg-gammurinn og gammurinn,
gleðan og valakynið,
allt hrafnakynið,
strúturinn, svalan, mávurinn og haukakynið,
uglan, súlan og náttuglan,
hornuglan, pelíkaninn og hrægammurinn,
storkurinn og lóukynið, herfuglinn og leðurblakan.
Öll fleyg skriðkvikindi ferfætt séu yður viðurstyggð.
Af öllum fleygum skriðkvikindum ferfættum megið þér þau ein eta, er hafa leggi upp af afturfótunum til þess að stökkva með um jörðina.
Af þeim megið þér eta þessi: arbe-engisprettur, sólam-engisprettur, hargól-engisprettur og hagab-engisprettur.
En öll önnur fleyg skriðkvikindi ferfætt séu yður viðurstyggð.
Af þessum dýrum verðið þér óhreinir. Hver sem snertir hræ þeirra, verður óhreinn til kvelds.
En hver sá, sem ber hræ þeirra, hann skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds.
Hvert það ferfætt dýr, sem hefir klaufir, þó eigi alklofnar, og eigi jórtrar, sé yður óhreint. Hver sem þau snertir verður óhreinn.
Og öll þau, sem ganga á hrömmum sínum, meðal allra dýra ferfættra, séu yður óhrein. Hver sem snertir hræ þeirra, er óhreinn til kvelds.
Og sá, sem ber hræ þeirra, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. Þau skulu vera yður óhrein.
Þessi skulu vera yður óhrein á meðal skriðkvikindanna, sem skríða á jörðinni: hreysivislan, músin og eðlukynið,
skrækeðlan, kóah-eðlan, leta-eðlan, salamandran og kamelljónið.
Þessi skulu vera yður óhrein meðal allra skriðkvikindanna. Hver sem snertir þau, þegar þau eru dauð, verður óhreinn til kvelds.
Sérhvað það, er eitthvert af þeim fellur ofan á, þegar þau eru dauð, verður óhreint, hvort heldur er tréílát, klæði, skinn eða sekkur; öll þau áhöld, sem til einhvers eru notuð. Skal það í vatn leggja og er óhreint til kvelds, þá er það hreint.
Falli eitthvert af þeim ofan í leirker, þá verður allt, sem í því er, óhreint, og kerið skuluð þér brjóta.
Allur matur, sem etinn er og vatn er látið í, verður óhreinn, og allur drykkur, sem drukkinn er, verður óhreinn, í hvaða keri sem hann er.
Og sérhvað það, sem hræ þeirra fellur á, verður óhreint. Hvort heldur er ofn eða eldstó, skal það rifið niður. Það er óhreint, og óhreint skal það yður vera.
Lindir einar og brunnar, það er vatnsstæður, skulu hreinar vera, en sá, sem hræin snertir, verður óhreinn.
En þó að eitthvað af hræjunum falli á útsæði, sem á að sá, þá er það hreint.
En ef vatn er látið á sæðið og eitthvað af hræjunum fellur ofan í það, þá sé það yður óhreint.
Þegar einhver af þeim skepnum deyr, sem yður eru til fæðu, þá skal sá, er snertir dauðan skrokkinn, vera óhreinn til kvelds.
Og sá, sem etur af skrokknum, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. Og sá, sem ber skrokkinn, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds.
Öll skriðkvikindi, sem skríða á jörðinni, skulu vera yður viðurstyggð. Eigi skal þau eta.
Öll þau, er skríða á kviðnum, og öll þau, er ganga á fjórum fótum, svo og allar margfætlur meðal allra skriðkvikinda, er skríða á jörðinni, þau skuluð þér eigi eta, því að þau eru viðurstyggð.
Látið eigi nokkurt skriðkvikindi gjöra yður sjálfa viðurstyggilega, og saurgið yður ekki á þeim, svo að þér verið óhreinir af þeim.
Því að ég er Drottinn, Guð yðar. Og helgist og verið heilagir, því að ég er heilagur. Og þér skuluð ekki saurga sjálfa yður á nokkru því skriðkvikindi, sem skríður á jörðinni.
Því að ég er Drottinn, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera yðar Guð. Þér skuluð vera heilagir, því að ég er heilagur."
Þessi eru ákvæðin um ferfættu dýrin, fuglana og allar lifandi skepnur, sem hrærast í vötnunum, og um allar lifandi skepnur, sem jörðin er kvik af,
svo að menn viti grein óhreinna og hreinna dýra, svo og ætra dýra og óætra.

12

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Þegar kona verður léttari og elur sveinbarn, þá skal hún vera óhrein sjö daga. Skal hún vera óhrein, eins og þá daga, sem hún er saurug af klæðaföllum.
Og á áttunda degi skal umskera hold yfirhúðar hans.
En konan skal halda sér heima þrjátíu og þrjá daga, meðan á blóðhreinsuninni stendur. Hún skal ekkert heilagt snerta og eigi inn í helgidóminn koma, uns hreinsunardagar hennar eru úti.
En ef hún elur meybarn, þá skal hún vera óhrein hálfan mánuð, sem þá er hún er saurug af klæðaföllum, og hún skal halda sér heima sextíu og sex daga, meðan á blóðhreinsuninni stendur.
En þegar hreinsunardagar hennar eru úti, hvort heldur er fyrir son eða dóttur, þá skal hún færa prestinum að dyrum samfundatjaldsins sauðkind veturgamla í brennifórn og unga dúfu eða turtildúfu í syndafórn.
Skal hann fram bera það fyrir Drottin og friðþægja fyrir hana, og er hún þá hrein af blóðlátum sínum." Þessi eru ákvæðin um sængurkonuna, hvort heldur barnið er sveinbarn eða meybarn.
En ef hún á ekki fyrir sauðkind, þá færi hún tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, aðra í brennifórn, en hina í syndafórn, og skal presturinn friðþægja fyrir hana, og er hún þá hrein.

13

Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
"Nú tekur einhver þrota, hrúður eða gljádíla í skinnið á hörundi sínu og verður að líkþrárskellu í skinninu á hörundi hans. Þá skal leiða hann fyrir Aron prest eða einhvern af prestunum, sonum hans.
Og prestur skal líta á skelluna í skinninu á hörundinu, og hafi hárin í skellunni gjörst hvít og beri skelluna dýpra en skinnið á hörundi hans, þá er það líkþrárskella. Og prestur skal líta á hann og dæma hann óhreinan.
En sé hvítur gljádíli í skinninu á hörundi hans og beri ekki dýpra en skinnið og hafi hárin í honum ekki gjörst hvít, þá skal prestur byrgja inni sjö daga þann, er skelluna hefir tekið.
Og prestur skal líta á hann á sjöunda degi, og sjái hann að jafnmikið ber á skellunni og hafi skellan ekki færst út í skinninu, þá skal prestur byrgja hann enn inni sjö daga.
Og prestur skal enn líta á hann á sjöunda degi, og sjái hann þá, að skellan hefir dökknað, og hafi skellan ekki færst út í skinninu, skal prestur dæma hann hreinan. Þá er það hrúður, og hann skal þvo klæði sín og er þá hreinn.
En færist hrúðrið út í skinninu eftir að hann sýndi sig prestinum til þess að verða dæmdur hreinn, þá skal hann aftur sýna sig prestinum.
Og prestur skal líta á, og sjái hann, að hrúðrið hefir færst út í skinninu, þá skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrá.
Nú tekur einhver líkþrárskellu, og skal leiða hann fyrir prest.
Og prestur skal líta á, og sjái hann, að hvítur þroti er í skinninu og hefir gjört hárin hvít, og lifandi kvika er í þrotanum,
þá er það gömul líkþrá í skinninu á hörundi hans, og skal prestur dæma hann óhreinan. Hann skal eigi byrgja hann inni, því að hann er óhreinn.
En brjótist líkþráin út um skinnið og hylji líkþráin allt skinnið frá hvirfli til ilja á þeim, er skellurnar hefir tekið, hvar sem prestur rennir augum til,
þá skal prestur líta á, og sjái hann, að líkþráin hefir hulið allt hörund hans, þá skal hann dæma hreinan þann, er skellurnar hefir tekið. Hann hefir þá allur gjörst hvítur og er þá hreinn.
En þegar er ber á kviku holdi á honum, skal hann vera óhreinn.
Og prestur skal líta á kvika holdið og dæma hann óhreinan. Kvika holdið er óhreint. Þá er það líkþrá.
En hverfi kvika holdið og gjörist hvítt, þá skal hann ganga fyrir prest.
Og prestur skal líta á hann, og sjái hann að skellurnar hafa gjörst hvítar, þá skal prestur dæma hreinan þann, er skellurnar hefir tekið. Þá er hann hreinn.
Nú kemur kýli í hörundið, út í skinnið, og grær,
og kemur í stað kýlisins hvítur þroti eða gljádíli ljósrauður, þá skal hann sýna sig presti.
Og prestur skal líta á, og sjái hann, að dílann ber lægra en skinnið og hárin í honum hafa gjörst hvít, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt, sem brotist hefir út í kýlinu.
En ef prestur lítur á hann og sér, að engin hvít hár eru í honum og hann er ekki lægri en skinnið og hefir dökknað, þá skal prestur byrgja hann inni sjö daga.
En færist hann út í skinninu, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt.
En ef gljádílinn stendur í stað og færist eigi út, þá er það kýlis-ör, og prestur skal dæma hann hreinan.
En ef brunasár kemur á hörundið og brunakvikan verður að gljádíla ljósrauðum eða hvítum,
þá skal prestur líta á hann. Og sjái hann, að hárin í gljádílanum hafa gjörst hvít og ber hann dýpra en skinnið, þá er það líkþrá, sem hefir brotist út í brunanum, og skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt.
En ef prestur lítur á hann og sér, að engin hvít hár eru í gljádílanum og hann er ekki lægri en skinnið og hefir dökknað, þá skal prestur byrgja hann inni sjö daga.
Og prestur skal líta á hann á sjöunda degi. Hafi hann þá færst út í skinninu, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt.
En ef gljádílinn stendur í stað og hefir eigi færst út í skinninu, en dökknað, þá er það brunaþroti, og skal prestur dæma hann hreinan, því að þá er það bruna-ör.
Nú tekur karl eða kona skellu í höfuðið eða skeggið.
Þá skal prestur líta á skelluna, og sjái hann, að hana ber dýpra en skinnið og gulleit visin hár eru í henni, þá skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það skurfa, það er líkþrá í höfði eða skeggi.
Og er prestur lítur á skurfuskelluna og sér, að hana ber ekki dýpra en skinnið og engin svört hár eru í henni, þá skal prestur byrgja inni sjö daga þann, er skurfuskelluna hefir tekið.
Og prestur skal líta á skelluna á sjöunda degi, og sjái hann, að skurfan hefir eigi færst út og engin gulleit hár eru í henni og skurfuna ber eigi dýpra en skinnið,
þá skal hann raka sig, en skurfuna skal hann ekki raka, og prestur skal enn byrgja inni sjö daga þann, er skurfuna hefir tekið.
Og prestur skal líta á skurfuna á sjöunda degi, og sjái hann, að skurfan hefir eigi færst út í skinninu og hana ber ekki dýpra en skinnið, þá skal prestur dæma hann hreinan. Og hann skal þvo klæði sín og er þá hreinn.
En ef skurfan færist út í skinninu eftir að hann hefir verið dæmdur hreinn,
þá skal prestur líta á hann. Og sjái hann, að skurfan hefir færst út í skinninu, þá skal prestur ekki leita að gulleitu hárunum. Þá er hann óhreinn.
En ef jafnmikið ber á skurfunni og svört hár hafa sprottið í henni, þá er skurfan gróin. Hann er þá hreinn, og prestur skal dæma hann hreinan.
Nú tekur karl eða kona gljádíla, hvíta gljádíla í skinnið á hörundi sínu,
þá skal prestur líta á. Og sjái hann, að gljádílarnir í skinninu á hörundi þeirra eru dumb-hvítir, þá er það hringormur, sem hefir brotist út í skinninu. Þá er hann hreinn.
Nú verður einhver sköllóttur ofan á höfðinu, þá er hann hvirfilskalli og er hreinn.
Og ef hann verður sköllóttur framan á höfðinu, þá er hann ennisskalli og er hreinn.
En sé ljósrauð skella í hvirfilskallanum eða ennisskallanum, þá er það líkþrá, er út brýst í hvirfilskalla hans eða ennisskalla.
Prestur skal þá líta á hann, og sjái hann að skelluþrotinn í hvirfilskalla hans eða ennisskalla er ljósrauður, á að sjá sem líkþrá í skinninu á hörundinu,
þá er hann maður líkþrár og er óhreinn. Prestur skal sannlega dæma hann óhreinan. Líkþrársóttin er í höfði honum.
Líkþrár maður, er sóttina hefir, - klæði hans skulu vera rifin og hár hans flakandi, og hann skal hylja kamp sinn og hrópa: ,Óhreinn, óhreinn!'
Alla þá stund, er hann hefir sóttina, skal hann óhreinn vera. Hann er óhreinn. Hann skal búa sér. Bústaður hans skal vera fyrir utan herbúðirnar.
Nú kemur líkþrárskella á fat, hvort heldur er ullarfat eða línfat,
eða vefnað eða prjónles af líni eða ullu, eða skinn eða eitthvað það, sem af skinni er gjört,
og sé skellan grænleit eða rauðleit á fatinu eða skinninu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða nokkrum hlut af skinni gjörvum, þá er það líkþrárskella, og skal sýna það prestinum.
Og prestur skal líta á skelluna og byrgja inni sjö daga það, er skellan er á.
Og hann skal líta á skelluna á sjöunda degi. Hafi skellan færst út á fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða skinninu, til hverra nota sem skinnið er haft, þá er skellan skæð líkþrá. Þá er það óhreint.
Og skal brenna fatið eða vefnaðinn eða prjónlesið, hvort það er heldur af ullu eða líni, eða hvern hlut af skinni gjörvan, er skellan er á, því að það er skæð líkþrá. Það skal í eldi brenna.
En ef prestur lítur á og sér, að skellan hefir eigi færst út í fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða á einhverjum hlut af skinni gjörvum,
þá skal prestur bjóða að þvo það, sem skellan er á, og hann skal enn byrgja það inni sjö daga.
Og prestur skal líta á, eftir að það, sem skellan er á, er þvegið, og sjái hann, að skellan hefir eigi breytt lit og skellan hefir eigi færst út, þá er það óhreint. Þú skalt brenna það í eldi, þá er það áta, hvort það er heldur á úthverfunni eða rétthverfunni.
En ef prestur lítur á og sér, að skellan hefir dökknað, eftir að hún var þvegin, þá skal hann rífa hana af fatinu eða skinninu eða vefnaðinum eða prjónlesinu.
En komi hún enn í ljós á fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða á nokkrum hlut af skinni gjörvum, þá er það líkþrá, sem er að brjótast út. Þú skalt brenna í eldi það, er skellan er á.
En það fat eða vefnaður eða prjónles, eða sérhver hlutur af skinni gjör, sem skellan gengur af, ef þvegið er, það skal þvo annað sinn, og er þá hreint."
Þessi eru ákvæðin um líkþrársótt í ullarfati eða línfati eða vefnaði eða prjónlesi eða nokkrum hlut af skinni gjörvum, er það skal dæma hreint eða óhreint.

14

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Þetta skulu vera ákvæðin um líkþráan mann, þá er hann er hreinsaður: Skal leiða hann fyrir prest,
og prestur skal ganga út fyrir herbúðirnar, og prestur skal líta á. Og sjái hann að líkþrárskellan á hinum líkþráa er gróin,
þá skal presturinn bjóða að taka fyrir þann, er lætur hreinsa sig, tvo hreina fugla lifandi, sedrusvið, skarlat og ísópsvönd.
Og prestur skal bjóða að slátra öðrum fuglinum í leirker yfir rennandi vatni.
En lifandi fuglinn, sedrusviðinn, skarlatið og ísópsvöndinn skal hann taka og drepa því, ásamt lifandi fuglinum, í blóð fuglsins, er slátrað var yfir rennandi vatni.
Og hann skal stökkva sjö sinnum á þann, sem lætur hreinsa sig af líkþránni, og dæma hann hreinan, en sleppa lifandi fuglinum út á víðavang.
Sá er lætur hreinsa sig, skal þvo klæði sín, raka allt hár sitt og lauga sig í vatni, og er þá hreinn. Og síðan gangi hann í herbúðirnar, en skal þó sjö daga hafast við fyrir utan tjald sitt.
Og á sjöunda degi skal hann raka allt hár sitt, bæði höfuð sitt, skegg og augabrúnir, - allt hár sitt skal hann raka. Og hann skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni, og er þá hreinn.
Á áttunda degi skal hann taka tvö hrútlömb gallalaus og eina gimbur veturgamla gallalausa og þrjá tíunduparta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og einn lóg af olíu.
Og presturinn, er hreinsar, skal færa manninn, er lætur hreinsa sig, ásamt þessu fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins.
Og presturinn skal taka annað hrútlambið og fórna því í sektarfórn, ásamt olíu-lóginum, og veifa hvorutveggja að veififórn frammi fyrir Drottni.
Og lambinu skal slátra á þeim stað, þar sem syndafórninni er slátrað og brennifórninni, á helgum stað; því að eins og syndafórn heyrir presti, svo er og um sektarfórn. Hún er háheilög.
Prestur skal taka nokkuð af blóði sektarfórnarinnar, og prestur skal ríða því á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans.
Og prestur skal taka nokkuð af olíu-lóginum og hella í vinstri lófa sér.
Og prestur skal drepa hægri fingri sínum í olíuna, sem er í vinstri lófa hans, og stökkva olíunni með fingri sínum sjö sinnum frammi fyrir Drottni.
Og af leifunum af olíunni, sem er í lófa hans, skal prestur ríða á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans, ofan á blóðið úr sektarfórninni.
Og því, sem leift er af olíunni í lófa prestsins, skal hann ríða á höfuð þess, sem lætur hreinsa sig, og prestur skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni.
Þá skal prestur fórna syndafórninni og friðþægja fyrir þann, er lætur hreinsa sig, vegna óhreinleika hans, og síðan skal hann slátra brennifórninni.
Og prestur skal fram bera á altarið brennifórnina og matfórnina. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann, og er hann þá hreinn.
En sé hann fátækur og á ekki fyrir þessu, þá skal hann taka eitt hrútlamb í sektarfórn til veifunar, til þess að friðþægt verði fyrir hann, og einn tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og lóg af olíu
og tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, eftir því sem efni hans leyfa. Skal önnur vera til syndafórnar, en hin til brennifórnar.
Og hann skal færa þær prestinum á áttunda degi frá hreinsun sinni að dyrum samfundatjaldsins fram fyrir Drottin.
Og prestur skal taka sektarfórnarlambið og olíu-lóginn, og prestur skal veifa því til veififórnar frammi fyrir Drottni.
Síðan skal sektarfórnarlambinu slátrað. Prestur skal taka nokkuð af blóði sektarfórnarinnar og ríða á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans.
Og nokkru af olíunni skal prestur hella í vinstri lófa sér.
Og prestur skal stökkva nokkru af olíunni, sem er í vinstri lófa hans, með hægri fingri sínum sjö sinnum frammi fyrir Drottni.
Og prestur skal ríða nokkru af olíunni, sem er í lófa hans, á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og stórutá hægri fótar hans, á þann stað þar sem blóðið úr sektarfórninni er.
En því, sem leift er af olíunni í lófa prestsins, skal hann ríða á höfuð þess, er lætur hreinsa sig, til þess að friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni.
Þá skal hann fórna annarri turtildúfunni eða annarri ungu dúfunni, eftir því sem hann hafði efnin til,
annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, ásamt matfórninni. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir þann, er lætur hreinsa sig, frammi fyrir Drottni."
Þetta eru ákvæðin um þann, sem hefir líkþrársótt og ekki á fyrir hreinsun sinni.
Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
"Þá er þér komið í Kanaanland, sem ég mun gefa yður til eignar, og ég læt koma líkþrárskellu á hús í eignarlandi yðar,
þá skal sá fara, sem húsið á, og greina presti frá og segja: ,Mér virðist sem skella sé á húsinu.'
Og prestur skal bjóða að láta ryðja húsið áður en prestur gengur inn til þess að líta á skelluna, svo að ekki verði allt óhreint, sem í húsinu er. Síðan skal prestur ganga inn til þess að skoða húsið.
Og hann skal líta á skelluna, og sjái hann, að skellan á veggjum hússins eru dældir grænleitar eða rauðleitar, og þær ber lægra en vegginn,
þá skal prestur ganga út úr húsinu að dyrum hússins og byrgja húsið sjö daga.
Og prestur skal koma aftur á sjöunda degi og líta á, og sjái hann að skellan hefir færst út á veggjum hússins,
þá skal prestur bjóða að brjóta þá steina úr, sem skellan er á, og varpa þeim á óhreinan stað utan borgar.
Og húsið skal hann láta skafa allt að innan, og skulu þeir steypa niður vegglíminu, er þeir skafa af, á óhreinan stað utan borgar.
Og þeir skulu taka aðra steina og setja í stað hinna steinanna, og annað vegglím skal taka og ríða á húsið.
En ef skellan kemur aftur og brýst út á húsinu, eftir að steinarnir hafa verið brotnir úr og eftir að húsið hefir verið skafið og síðan verið riðið á vegglími,
þá skal prestur koma og líta á. Og sjái hann að skellan hefir færst út á húsinu, þá er það skæð líkþrá á húsinu. Það er óhreint.
Og skal rífa húsið, steinana í því, viðina og allt vegglím hússins, og færa út fyrir borgina á óhreinan stað.
Hver sem gengur inn í húsið alla þá stund, sem það er byrgt, skal vera óhreinn til kvelds.
Og hver sem hvílir í húsinu, skal þvo klæði sín, og hver sem matar neytir í húsinu, skal þvo klæði sín.
En ef prestur kemur og lítur á og sér, að skellan hefir ekki færst út á húsinu eftir að riðið var vegglími á húsið, þá skal prestur dæma húsið hreint, því að skellan er þá læknuð.
Og hann skal taka tvo fugla, sedrusvið, skarlat og ísópsvönd til þess að syndhreinsa húsið.
Og hann skal slátra öðrum fuglinum í leirker yfir rennandi vatni.
En sedrusviðinn, ísópsvöndinn, skarlatið og lifandi fuglinn skal hann taka og drepa þeim í blóð fuglsins, er slátrað var, og í rennandi vatnið og stökkva á húsið sjö sinnum.
Og hann skal syndhreinsa húsið með blóði fuglsins og rennandi vatninu, með lifandi fuglinum, sedrusviðinum, ísópsvendinum og skarlatinu.
En lifandi fuglinum skal hann sleppa út fyrir borgina, út á víðavang, og friðþægja þannig fyrir húsið, og er það þá hreint."
Þetta eru ákvæðin um hvers konar líkþrársótt og skurfu,
um líkþrá í fati og á húsi,
um þrota, hrúður og gljádíla,
til leiðbeiningar um það, hvenær eitthvað er óhreint og hvenær það er hreint. Þetta eru ákvæðin um líkþrá.

15

Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
"Mælið til Ísraelsmanna og segið við þá: Nú hefir einhver rennsli úr hörundi sínu, og er hann óhreinn vegna rennslisins.
Og skal svo vera um óhreinleika hans, þá er hann hefir rennsli: Hvort sem rennslið úr hörundi hans gengur út eða stemmist, þá er hann óhreinn.
Sérhver hvíla skal óhrein vera, ef maður með rennsli hefir legið í henni, og sérhvað það skal óhreint vera, er hann situr á.
Og hver sem snertir hvílu hans, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
Og sá er sest á nokkuð það, sem maður með rennsli hefir setið á, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
Og sá sem snertir líkama þess, er rennsli hefir, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
Hræki sá, er rennsli hefir, á hreinan mann, þá skal hann þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
Sérhver söðull skal óhreinn vera, ef maður með rennsli ríður í honum.
Og hver sá, er snertir eitthvað það, sem hefir verið undir honum, skal vera óhreinn til kvelds, og sá, er ber það, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
Og hver sá, er maður með rennsli hefir snortið, og hafi hann eigi skolað hendur sínar í vatni, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
Og leirker skal brjóta, ef maður með rennsli snertir það, en tré-ílát öll skola í vatni.
Er sá, er rennsli hefir, verður hreinn af rennsli sínu, skal hann telja sjö daga frá hreinsun sinni og þvo klæði sín og lauga líkama sinn í rennandi vatni, og er þá hreinn.
Og á áttunda degi skal hann taka tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur og ganga fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins og færa þær presti.
Og prestur skal fórna þeim, annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, og prestur skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni vegna rennslis hans.
Nú lætur einhver sæði, og skal hann lauga allan líkama sinn í vatni og vera óhreinn til kvelds.
Og hvert það fat eða skinn, sem sæðið hefir komið á, skal þvegið í vatni og vera óhreint til kvelds.
Og leggist maður með konu og hafi samfarir við hana, þá skulu þau lauga sig í vatni og vera óhrein til kvelds.
Nú hefir kona rennsli, og rennslið úr holdi hennar er blóð, þá skal hún vera óhrein sjö daga, og hver sem snertir hana, skal vera óhreinn til kvelds.
Allt það, sem hún liggur á, meðan hún er óhrein, skal vera óhreint, og allt, sem hún situr á, skal vera óhreint.
Og hver sem snertir hvílu hennar, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
Og hver sem snertir nokkuð það, sem hún hefir setið á, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
Og snerti hann eitthvað, sem er í hvílunni eða á því, sem hún situr á, þá skal hann vera óhreinn til kvelds.
Og ef einhver samrekkir henni og tíðablóð hennar kemur á hann, þá er hann óhreinn sjö daga, og hver sú hvíla skal óhrein vera, er hann liggur í.
Nú missir kona blóð marga daga á öðrum tíma en þeim, er hún hefir tíðir, eða hún hefir rennsli fram yfir tíðir sínar, þá skal hún alla þá stund, er hún hefir óhreint rennsli, haga sér eins og þá daga, er hún hefir tíðir. Hún er óhrein.
Hverja hvílu, sem hún liggur í alla þá stund, sem hún hefir rennsli, skal hún fara með eins og hvílu sína, þá er hún hefir tíðir, og sérhvað það, er hún situr á, skal vera óhreint, eins og þegar hún er óhrein af klæðaföllum.
Hver sem snertir þetta, skal vera óhreinn, og hann skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
En þá er hún er hrein orðin af rennsli sínu, skal hún telja sjö daga, og eftir það er hún hrein.
Og á áttunda degi skal hún taka sér tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur og færa þær prestinum að dyrum samfundatjaldsins.
Og prestur skal fórna annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, og prestur skal friðþægja fyrir hana frammi fyrir Drottni vegna hins óhreina rennslis hennar.
Og þannig skuluð þér vara Ísraelsmenn við óhreinleika þeirra, að þeir deyi ekki í óhreinleika sínum, ef þeir saurga búð mína, sem er meðal þeirra."
Þetta eru ákvæðin um þann, sem hefir rennsli, og þann, sem hefir sáðlát, svo að hann verður óhreinn af,
og um konu, sem hefir tíðir, og þann, sem hefir rennsli, hvort heldur er karl eða kona, og um mann, sem samrekkir konu óhreinni.

16

Drottinn talaði við Móse eftir dauða tveggja sona Arons, er þeir gengu fram fyrir Drottin og dóu.
Og Drottinn sagði við Móse: "Seg þú Aroni bróður þínum, að hann megi ekki á hverjum tíma sem er ganga inn í helgidóminn inn fyrir fortjaldið, fram fyrir lokið, sem er yfir örkinni, ella muni hann deyja, því að ég mun birtast í skýinu yfir lokinu.
Með þetta skal Aron koma inn í helgidóminn: Með ungneyti í syndafórn og hrút í brennifórn.
Hann skal klæðast helgum línkyrtli og hafa línbrækur yfir holdi sínu og gyrða sig línbelti og setja á sig vefjarhött af líni. Þetta eru helg klæði. Og skal hann lauga líkama sinn í vatni og klæðast þeim.
Af söfnuði Ísraelsmanna skal hann taka tvo geithafra í syndafórn og einn hrút í brennifórn.
Aron skal leiða fram uxann, sem honum er ætlaður til syndafórnar, og friðþægja fyrir sig og hús sitt.
Þá skal hann taka báða geithafrana og færa þá fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins.
Og Aron skal leggja hluti á báða hafrana, einn hlut fyrir Drottin og hinn annan hlut fyrir Asasel.
Og Aron skal leiða fram hafurinn, sem hlutur Drottins féll á, og fórna honum í syndafórn.
En hafurinn, sem hlutur Asasels féll á, skal færa lifandi fram fyrir Drottin, til þess að friðþæging fari fram yfir honum og honum sé sleppt til Asasels út á eyðimörkina.
Aron skal leiða fram uxann, sem honum er ætlaður til syndafórnar, og friðþægja fyrir sig og hús sitt, og hann skal slátra uxanum, sem honum er ætlaður til syndafórnar.
Hann skal taka eldpönnu fulla af eldsglóðum af altarinu frammi fyrir Drottni og lúkur sínar fullar af smámuldu ilmreykelsi og bera inn fyrir fortjaldið.
Og hann skal láta reykelsið á eldinn frammi fyrir Drottni, svo að reykelsisskýið hylji lokið, sem er yfir sáttmálinu, og hann deyi ekki.
Og hann skal taka nokkuð af blóði uxans og stökkva því með fingri sínum ofan á lokið framanvert, og fyrir framan lokið skal hann stökkva sjö sinnum nokkru af blóðinu með fingri sínum.
Þessu næst skal hann slátra hafrinum, er ætlaður er lýðnum til syndafórnar, og bera blóð hans inn fyrir fortjaldið og fara með blóðið úr honum á sama hátt, eins og hann fór með blóðið úr uxanum, og stökkva því á lokið og fyrir framan lokið,
og friðþægja þannig fyrir helgidóminn, vegna óhreinleika Ísraelsmanna og vegna misgjörða þeirra, í hverju sem þeir kunna að hafa syndgað. Og eins skal hann fara með samfundatjaldið, sem stendur meðal þeirra, mitt í óhreinleika þeirra.
Enginn maður má vera inni í samfundatjaldinu, er hann gengur inn til þess að friðþægja í helgidóminum, til þess er hann fer út og hefir friðþægt fyrir sig og hús sitt og fyrir allan Ísraels söfnuð.
Hann skal ganga út að altarinu, sem stendur frammi fyrir Drottni, og friðþægja fyrir það. Og hann skal taka nokkuð af blóði uxans og nokkuð af blóði hafursins og ríða á horn altarisins allt í kring.
Og hann skal stökkva nokkru af blóðinu á það sjö sinnum með fingri sínum og hreinsa það og helga það vegna óhreinleika Ísraelsmanna.
Er hann þannig hefir lokið friðþægingu helgidómsins, samfundatjaldsins og altarisins, skal hann leiða fram lifandi hafurinn.
Og Aron skal leggja báðar hendur sínar á höfuð hins lifandi hafurs og játa yfir honum öll afbrot Ísraelsmanna og allar misgjörðir þeirra, í hverju sem þeir kunna að hafa syndgað. Og hann skal leggja þær á höfuð hafursins og senda hann út á eyðimörk með manni, sem til þess er ferðbúinn.
Og hafurinn skal bera á sér öll afbrot þeirra til óbyggða, og hann skal sleppa hafrinum á eyðimörk.
Og Aron skal ganga inn í samfundatjaldið og færa sig úr línklæðunum, sem hann fór í, er hann gekk inn í helgidóminn, og skilja þau þar eftir.
Og hann skal lauga líkama sinn í vatni á helgum stað og fara í klæði sín, ganga síðan út og fórna brennifórn sjálfs sín og brennifórn lýðsins, og friðþægja fyrir sig og fyrir lýðinn.
Og mör syndafórnarinnar skal hann brenna á altarinu.
Og sá, er fór burt með hafurinn til Asasels, skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar.
En syndafórnaruxann og syndafórnarhafurinn, hverra blóð var borið inn til friðþægingar í helgidóminum, skal færa út fyrir herbúðirnar og brenna í eldi skinnin af þeim, kjötið og gorið.
Og sá, er brennir þetta, skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar.
Þetta skal vera yður ævarandi lögmál: Í sjöunda mánuðinum, á tíunda degi mánaðarins skuluð þér fasta og ekkert verk vinna, hvorki innbornir menn né útlendingar, er meðal yðar búa.
Því að á þessum degi skal friðþægt verða fyrir yður til þess að hreinsa yður. Af öllum syndum yðar skuluð þér hreinir vera fyrir Drottni.
Það skal vera yður algjör hvíldardagur, og þér skuluð fasta. Það er ævarandi lögmál.
En friðþæginguna skal gjöra sá prestur, er smyrja á og vígjast skal til þess, að hann þjóni í prestsembætti í stað föður síns, og skal hann klæðast línklæðunum, hinum helgu klæðum.
Hann skal friðþægja fyrir hið helgasta, og hann skal friðþægja fyrir samfundatjaldið og altarið, og hann skal friðþægja fyrir prestana og allt fólk safnaðarins.
Þetta skal vera yður ævarandi lögmál: að friðþægja einu sinni á ári fyrir Ísraelsmenn vegna allra synda þeirra." Og hann gjörði svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

17

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Tala þú við Aron og sonu hans og alla Ísraelsmenn og seg við þá: Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið og sagt:
Hver sá af húsi Ísraels, sem slátrar nautgrip eða sauðkind eða geitsauð í herbúðunum, eða slátrar því fyrir utan herbúðirnar,
og leiðir það ekki að dyrum samfundatjaldsins til þess að færa Drottni það að fórnargjöf fyrir framan búð Drottins, sá maður skal vera blóðsekur. Hann hefir úthellt blóði, og sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni,
til þess að Ísraelsmenn færi sláturfórnir sínar, er þeir eru vanir að fórna á bersvæði, - að þeir færi þær prestinum að dyrum samfundatjaldsins Drottni til handa og fórni þeim í heillafórnir Drottni til handa.
Prestur skal stökkva blóðinu á altari Drottins við dyr samfundatjaldsins og brenna mörinn til þægilegs ilms fyrir Drottin.
Og þeir skulu eigi framar færa fórnir skógartröllunum, er þeir nú taka fram hjá með. Þetta skal vera þeim ævarandi lögmál frá kyni til kyns.
Og þú skalt segja við þá: Hver sá af húsi Ísraels eða af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem fórnar brennifórn eða sláturfórn
og færir hana ekki að dyrum samfundatjaldsins til þess að fórna Drottni henni, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni.
Hver sá af húsi Ísraels og af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem neytir nokkurs blóðs, - gegn þeim manni, sem neytir blóðs, vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni.
Því að líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu.
Fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ,Enginn maður meðal yðar skal blóðs neyta, né heldur skal nokkur útlendingur, er býr meðal yðar, neyta blóðs.'
Og hver sá Ísraelsmanna og þeirra manna útlendra, er meðal yðar búa, sem veiðir villidýr eða fugl ætan, hann skal hella niður blóðinu og hylja það moldu.
Því að svo er um líf alls holds, að saman fer blóð og líf, og fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ,Þér skuluð ekki neyta blóðs úr nokkru holdi, því að líf sérhvers holds, það er blóð þess. Hver sá, er þess neytir, skal upprættur verða.'
Og hver sá, er etur sjálfdauða skepnu eða dýrrifna, hvort heldur er innborinn maður eða útlendur, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. Þá er hann hreinn.
En þvoi hann þau ekki og laugi ekki hold sitt, þá bakar hann sér sekt."

18

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá: Ég er Drottinn, Guð yðar.
Þér skuluð ekki gjöra að háttum Egyptalands, þar sem þér bjugguð, og þér skuluð ekki gjöra að háttum Kanaanlands, er ég mun leiða yður inn í, né heldur skuluð þér breyta eftir setningum þeirra.
Lög mín skuluð þér halda og setningar mínar skuluð þér varðveita, svo að þér breytið eftir þeim. Ég er Drottinn, Guð yðar.
Þér skuluð því varðveita setningar mínar og lög. Sá sem breytir eftir þeim skal lifa fyrir þau. Ég er Drottinn.
Enginn yðar skal koma nærri nokkru nánu skyldmenni til þess að bera blygðan þeirra. Ég er Drottinn.
Þú skalt eigi bera blygðan föður þíns og blygðan móður þinnar. Hún er móðir þín, þú skalt eigi bera blygðan hennar.
Þú skalt eigi bera blygðan konu föður þíns, það er blygðan föður þíns.
Blygðan systur þinnar, dóttur föður þíns eða dóttur móður þinnar, hvort heldur hún er fædd heima eða utan heimilis, - blygðan þeirra skalt þú eigi bera.
Blygðan sonardóttur þinnar eða dótturdóttur, blygðan þeirra skalt þú eigi bera, því að það er þín blygðan.
Blygðan dóttur konu föður þíns, afkvæmis föður þíns - hún er systir þín -, blygðan hennar skalt þú eigi bera.
Eigi skalt þú bera blygðan föðursystur þinnar, hún er náið skyldmenni föður þíns.
Eigi skalt þú bera blygðan móðursystur þinnar, því að hún er náið skyldmenni móður þinnar.
Eigi skalt þú bera blygðan föðurbróður þíns, eigi koma nærri konu hans, því að hún er sifkona þín.
Eigi skalt þú bera blygðan tengdadóttur þinnar. Hún er kona sonar þíns, eigi skalt þú bera blygðan hennar.
Eigi skalt þú bera blygðan konu bróður þíns. Það er blygðan bróður þíns.
Eigi skalt þú bera blygðan konu og dóttur hennar. Sonardóttur hennar eða dótturdóttur skalt þú eigi taka til þess að bera blygðan þeirra. Þær eru náin skyldmenni; það er óhæfa.
Né heldur skalt þú taka konu auk systur hennar, henni til eljurígs, með því að bera blygðan hennar auk hinnar, meðan hún er á lífi.
Eigi skalt þú koma nærri konu til að bera blygðan hennar, þá er hún er óhrein af klæðaföllum.
Þú skalt og eigi hafa holdlegt samræði við konu náunga þíns, svo að þú saurgist af.
Eigi skalt þú gefa nokkurt afkvæmi þitt til þess, að það sé helgað Mólok, svo að þú vanhelgir eigi nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn.
Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.
Þú skalt ekki eiga samlag við nokkra skepnu, svo að þú saurgist af. Né heldur skal kona standa fyrir skepnu til samræðis við hana. Það er svívirðing.
Saurgið yður ekki með nokkru þvílíku, því að með öllu þessu hafa heiðingjarnir saurgað sig, sem ég mun reka á burt undan yður.
Og landið saurgaðist, og fyrir því vitjaði ég misgjörðar þess á því, og landið spjó íbúum sínum.
Varðveitið því setningar mínar og lög og fremjið enga af þessum viðurstyggðum, hvorki innborinn maður né útlendingur, er býr meðal yðar, -
því að allar þessar viðurstyggðir hafa landsbúar, er fyrir yður voru, framið, og landið saurgaðist -,
svo að landið spúi yður ekki, er þér saurgið það, eins og það spjó þeirri þjóð, er fyrir yður var.
Því að hver sá, er fremur einhverja af þessum viðurstyggðum, þær sálir, sem það gjöra, skulu upprættar verða úr þjóð sinni.
Varðveitið því boðorð mín, svo að þér fylgið eigi neinum af þeim andstyggilegu venjum, er hafðar voru í frammi fyrir yðar tíð, og saurgið yður ekki með því. Ég er Drottinn, Guð yðar."

19

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Tala þú til alls safnaðar Ísraelsmanna og seg við þá: Þér skuluð vera heilagir, því að ég, Drottinn, Guð yðar, er heilagur.
Sérhver óttist móður sína og föður sinn og haldi hvíldardaga mína. Ég er Drottinn, Guð yðar.
Snúið yður eigi til falsguða og gjörið yður eigi steypta guði. Ég er Drottinn, Guð yðar.
Er þér slátrið heillafórn Drottni til handa, þá slátrið henni þannig, að hún afli yður velþóknunar.
Skal eta hana daginn, sem þér fórnið henni, og daginn eftir, en það, sem leift er til þriðja dags, skal brenna í eldi.
En sé þó etið af því á þriðja degi, þá skal það talið skemmt kjöt. Það mun eigi verða velþóknanlegt.
Og hver, sem etur það, bakar sér sekt, því að hann hefir vanhelgað það sem helgað er Drottni, og sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni.
Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar.
Og eigi skalt þú gjörtína víngarð þinn, né heldur tína upp niður fallin ber í víngarði þínum. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar.
Þér skuluð eigi stela, eigi svíkja, né heldur ljúga hver að öðrum.
Þér skuluð eigi sverja ranglega við nafn mitt, svo að þú vanhelgir nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn.
Þú skalt eigi beita náunga þinn ofríki, né ræna hann, og kaup daglaunamanns skal eigi vera hjá þér náttlangt til morguns.
Þú skalt ekki bölva daufum manni, né leggja fótakefli fyrir blindan mann, heldur skalt þú óttast Guð þinn. Ég er Drottinn.
Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi. Þú skalt eigi draga taum lítilmagnans, né heldur vera hliðdrægur hinum volduga. Með réttvísi skalt þú dæma náunga þinn.
Þú skalt eigi ganga um sem rógberi meðal fólks þíns og eigi krefjast blóðs náunga þíns. Ég er Drottinn.
Þú skalt ekki hata bróður þinn í hjarta þínu. Einarðlega skalt þú ávíta náunga þinn, að þú eigi bakir þér synd hans vegna.
Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.
Þér skuluð varðveita setningar mínar. Þú skalt eigi láta tvær tegundir fénaðar þíns eiga samlag, þú skalt eigi sá akur þinn tvenns konar sæði og eigi skalt þú bera klæði, sem ofin eru af tvenns konar efni.
Nú hefir einhver holdlegt samræði við konu, og sé hún ambátt manni föstnuð, en hvorki leysingi né frelsingi, þá liggur refsing við. Eigi skal lífláta þau, fyrir því að hún var eigi frelsingi.
En hann skal færa Drottni sektarfórn sína að dyrum samfundatjaldsins, hrút í sektarfórn.
Og presturinn skal friðþægja fyrir hann með sektarfórnarhrútnum frammi fyrir Drottni vegna syndar hans, sem hann hefir drýgt. Og honum mun fyrirgefin verða synd hans, sem hann hefir drýgt.
Er þér komið inn í landið og gróðursetjið alls konar aldintré, þá skuluð þér telja aldinin á þeim sem yfirhúð þeirra. Þrjú ár skuluð þér halda þau fyrir óumskorin; eigi skal neyta þeirra.
Fjórða árið skulu öll aldin þeirra vera helguð Drottni til lofgjörðar,
en fimmta árið skuluð þér eta aldin þeirra, svo að þau veiti yður því meiri arð. Ég er Drottinn, Guð yðar.
Þér skuluð ekkert með blóði eta. Þér skuluð eigi fara með spár né fjölkynngi.
Þér skuluð eigi kringluskera höfuð yðar, né heldur skalt þú skerða skeggrönd þína.
Og þér skuluð eigi skera skurði í hold yðar fyrir sakir dauðs manns, né heldur gjöra hörundsflúr á yður. Ég er Drottinn.
Vanhelga eigi dóttur þína með því að halda henni til saurlifnaðar, að eigi drýgi landið hór og landið fyllist óhæfu.
Þér skuluð halda hvíldardaga mína og bera lotningu fyrir helgidómi mínum. Ég er Drottinn.
Leitið eigi til særingaranda né spásagnaranda, farið eigi til frétta við þá, svo að þér saurgist ekki af þeim. Ég er Drottinn, Guð yðar.
Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið, og þú skalt óttast Guð þinn. Ég er Drottinn.
Ef útlendur maður býr hjá þér í landi yðar, þá skuluð þér eigi sýna honum ójöfnuð.
Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar.
Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi, stiku, vigt og mæli.
Þér skuluð hafa réttar vogir, rétta vogarsteina, rétta efu og rétta hín. Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi.
Og þér skuluð varðveita allar setningar mínar og öll lög mín og halda þau. Ég er Drottinn."

2

Þegar einhver vill færa Drottni matfórn, þá skal fórn hans vera fínt mjöl, og skal hann hella yfir það olíu og leggja reykelsiskvoðu ofan á það.
Og hann skal færa það sonum Arons, prestunum, en presturinn skal taka af því hnefafylli sína, af fína mjölinu og af olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, og brenna það á altarinu sem ilmhluta fórnarinnar, sem eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.
En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins.
Viljir þú færa matfórn af því, sem í ofni er bakað, þá séu það ósýrðar kökur af fínu mjöli olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð.
En sé fórnargjöf þín matfórn á pönnu, þá skal hún vera ósýrt brauð af fínu mjöli olíublandað.
Þú skalt brjóta það í mola og hella yfir það olíu; þá er það matfórn.
En sé fórn þín matfórn tilreidd í suðupönnu, þá skal hún gjörð af fínu mjöli með olíu.
Og þú skalt færa Drottni matfórnina, sem af þessu er tilreidd. Skal færa hana prestinum, og hann skal fram bera hana að altarinu.
En presturinn skal af matfórninni taka ilmhlutann og brenna á altarinu til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin.
En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins.
Engin matfórn, sem þér færið Drottni, skal gjörð af sýrðu deigi, því að ekkert súrdeig eða hunang megið þér brenna sem eldfórn Drottni til handa.
Í frumgróðafórn megið þér færa það Drottni, en upp að altarinu má eigi bera það til þægilegs ilms.
Allar matfórnir þínar skalt þú salti salta, og þú skalt eigi láta vanta í matfórnir þínar salt þess sáttmála, er Guð þinn hefir við þig gjört. Með öllum fórnum þínum skalt þú salt fram bera.
Færir þú Drottni frumgróðamatfórn, þá skalt þú fram bera í matfórn af frumgróða þínum öx, bökuð við eld, mulin korn úr nýslegnum kornstöngum.
Og þú skalt hella olíu yfir hana og leggja reykelsiskvoðu ofan á; þá er það matfórn.
Og presturinn skal brenna ilmhluta hennar, nokkuð af hinu mulda korni og olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, til eldfórnar fyrir Drottin.

20

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Og þú skalt segja við Ísraelsmenn: Hver sá Ísraelsmanna, eða útlendra manna, er búa í Ísrael, sem færir Mólok nokkurt afkvæmi sitt, skal líflátinn verða. Landslýður skal lemja hann grjóti.
Og ég vil snúa augliti mínu gegn þeim manni og uppræta hann úr þjóð sinni, fyrir þá sök að hann hefir fært Mólok afkvæmi sitt til þess að saurga helgidóm minn og vanhelga heilagt nafn mitt.
En ef landslýður hylmir yfir með slíkum manni, er hann færir Mólok afkvæmi sitt, og líflætur hann ekki,
þá vil ég snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gegn ætt hans. Og ég mun uppræta hann og alla þá, er verða honum samsekir í því að taka fram hjá með Mólok, úr þjóð þeirra.
Sá sem leitar til særingaranda og spásagnaranda til þess að taka fram hjá með þeim, gegn honum vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni.
Helgist og verið heilagir, því að ég er Drottinn, Guð yðar.
Fyrir því skuluð þér varðveita setningar mínar og halda þær. Ég er Drottinn, sá er yður helgar.
Hver sá, sem bölvar föður sínum eða móður sinni, skal líflátinn verða. Föður sínum eða móður sinni hefir hann bölvað, blóðsök hvílir á honum.
Þá er einhver drýgir hór með konu annars manns, drýgir hór með konu náunga síns, þá skal líflátinn verða bæði hórkarlinn og hórkonan.
Og leggist maður með konu föður síns, þá hefir hann berað blygðan föður síns. Þau skulu bæði líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim.
Og leggist maður með tengdadóttur sinni, þá skulu þau bæði líflátin verða. Svívirðing hafa þau framið, blóðsök hvílir á þeim.
Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.
Og taki maður bæði konu og móður hennar, þá er það óhæfa. Skal brenna hann í eldi ásamt þeim, svo að eigi gangist við óhæfa meðal yðar.
Og eigi maður samlag við skepnu, þá skal hann líflátinn verða, og skepnuna skuluð þér drepa.
Og ef kona kemur nærri einhverri skepnu til samræðis við hana, þá skalt þú deyða konuna og skepnuna. Þau skulu líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim.
Nú tekur einhver systur sína, dóttur föður síns eða dóttur móður sinnar, og sér blygðan hennar og hún sér blygðan hans, þá er það skömm. Þau skulu upprætt verða í augsýn samlanda sinna. Blygðan systur sinnar hefir hann berað og bakað sér sekt.
Leggist maður með konu, sem hefir tíðir, og berar blygðan hennar - hefir beran gjört brunn hennar og hún hefir sjálf berað brunn blóðs síns -, þá skulu þau bæði upprætt verða úr þjóð sinni.
Eigi skalt þú bera blygðan móðursystur þinnar eða föðursystur, því að sá maður hefir bert gjört náið skyldmenni sitt, þau hafa bakað sér sekt.
Og ef einhver leggst með sifkonu sinni, þá hefir hann berað blygðan föðurbróður síns. Þau hafa bakað sér synd, barnlaus skulu þau deyja.
Og ef einhver tekur konu bróður síns, þá er það saurgun. Blygðan bróður síns hefir hann berað, barnlaus skulu þau vera.
Varðveitið því allar setningar mínar og öll lög mín og haldið þau, svo að landið, sem ég mun leiða yður inn í, til þess að þér byggið það, spúi yður ekki.
Þér skuluð ekki breyta eftir setningum þeirrar þjóðar, sem ég rek burt undan yður, því að þeir frömdu allt þetta og þess vegna bauð mér við þeim.
Fyrir því sagði ég yður: ,Þér skuluð eignast land þeirra, og ég vil gefa yður það til eignar, land sem flýtur í mjólk og hunangi.' Ég er Drottinn, Guð yðar, sem hefi skilið yður frá þjóðunum.
Gjörið því grein hreinna ferfætlinga og óhreinna, og óhreinna fugla og hreinna, og gjörið yður eigi viðurstyggilega á skepnum, fuglum né neinu, sem hrærist á jörðinni, því sem ég hefi greint frá, til þess að það væri yður óhreint.
Og þér skuluð vera heilagir fyrir mér, því að ég, Drottinn, er heilagur, og hefi skilið yður frá þjóðunum, til þess að þér skuluð vera mínir.
Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim."

21

Drottinn sagði við Móse: "Mæl þú til prestanna, sona Arons, og seg við þá: Prestur skal eigi saurga sig á líki meðal fólks síns,
nema það sé skyldmenni hans, honum mjög náið: móðir hans, faðir hans, sonur hans, dóttir hans, bróðir hans
eða systir hans, sem er mey og honum nákomin, og eigi er manni gefin, vegna hennar má hann saurga sig.
Eigi skal hann saurga sig, þar eð hann er höfðingi meðal fólks síns, svo að hann vanhelgi sig.
Eigi skulu þeir gjöra skalla á höfði sér, eigi raka skeggrönd sína, né heldur skera skurði í hold sitt.
Þeir skulu vera heilagir fyrir Guði sínum og ekki vanhelga nafn Guðs síns, því að þeir bera fram eldfórnir Drottins, mat Guðs síns. Fyrir því skulu þeir vera heilagir.
Eigi skulu þeir ganga að eiga skækju eða mey spjallaða, né heldur skulu þeir ganga að eiga konu, er maður hennar hefir rekið frá sér, því að prestur er heilagur fyrir Guði sínum.
Fyrir því skalt þú halda hann heilagan, því að hann ber fram mat Guðs þíns. Hann skal vera þér heilagur, því að ég er heilagur, Drottinn, sá er yður helgar.
Og ef prestsdóttir vanhelgar sig með saurlifnaði, þá vanhelgar hún föður sinn. Hana skal brenna í eldi.
Sá sem er æðsti prestur meðal bræðra sinna, og smurningarolíu hefir verið hellt yfir höfuð honum og hönd hans fyllt, að hann klæðist hinum helgu klæðum, hann skal eigi láta hár sitt flaka og eigi rífa sundur klæði sín.
Eigi skal hann koma nærri nokkru líki. Vegna föður síns og vegna móður sinnar skal hann eigi saurga sig.
Og eigi skal hann ganga út úr helgidóminum, svo að hann vanhelgi ekki helgidóm Guðs síns, því að vígsla smurningarolíu Guðs hans er á honum. Ég er Drottinn.
Hann skal ganga að eiga konu í meydómi hennar.
Ekkju eða konu brott rekna eða mey spjallaða, skækju, eigi skal hann slíkum kvænast, heldur skal hann taka sér fyrir konu mey af þjóð sinni.
Eigi skal hann vanhelga afkvæmi sitt meðal fólks síns, því að ég er Drottinn, sá er helgar hann."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Mæl þú til Arons og seg: Hafi einhver niðja þinna, nú eða í komandi kynslóðum, lýti á sér, þá skal hann eigi ganga fram til þess að bera fram mat Guðs síns.
Því að enginn sá, er lýti hefir á sér, skal ganga fram, sé hann blindur eða haltur eða örkumlaður í andliti eða hafi ofskapaðan útlim,
eða sé hann fótbrotinn eða handleggsbrotinn,
eða hafi hann herðakistil eða sé tærður eða hafi vagl á auga eða kláða eða útbrot eða eistnamar.
Enginn af niðjum Arons prests, sem lýti hefir á sér, skal koma fram til þess að bera fram eldfórnir Drottins. Lýti er á honum; eigi skal hann koma fram til þess að bera fram mat Guðs síns.
Mat Guðs síns, bæði af því, sem háheilagt er og heilagt, má hann eta.
En þó skal hann hvorki ganga inn að fortjaldinu né koma nærri altarinu, því að lýti er á honum, að hann eigi vanhelgi helga dóma mína; því að ég er Drottinn, sá er helgar þá."
Þannig talaði Móse við Aron og sonu hans og við alla Ísraelsmenn.

22

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Seg þú Aroni og sonum hans, að þeir skuli halda sér frá helgigjöfum Ísraelsmanna, þeim er þeir helga mér, svo að þeir vanhelgi eigi heilagt nafn mitt. Ég er Drottinn.
Seg við þá: Hver sá af niðjum yðar, nú og í komandi kynslóðum, er kemur nærri helgigjöfum þeim, er Ísraelsmenn helga Drottni, meðan hann er óhreinn, skal upprættur verða frá augliti mínu. Ég er Drottinn.
Eigi skal neinn sá af niðjum Arons, sem líkþrár er eða hefir rennsli, eta af helgigjöfunum, uns hann er hreinn. Og sá, er snertir einhvern þann, sem saurgaður er af líki, eða mann sem hefir sáðlát,
eða sá, sem snert hefir eitthvert skriðkvikindi og saurgast af því, eða mann og saurgast af honum, hverrar tegundar sem óhreinleiki hans er, -
sá er snert hefir slíkt, skal vera óhreinn til kvelds. Og eigi skal hann eta af helgigjöfunum nema hann laugi líkama sinn í vatni.
En jafnskjótt og sól er setst, er hann hreinn, og síðan eti hann af helgigjöfunum, því að það er matur hans.
Sjálfdauða skepnu eða dýrrifna skal hann eigi eta, svo að hann saurgist af. Ég er Drottinn.
Þeir skulu því varðveita boðorð mín, svo að þeir baki sér eigi synd fyrir slíkt og deyi vegna þess, fyrir því að þeir vanhelguðu það. Ég er Drottinn, sá er helgar þá.
Enginn sá, er eigi heyrir skylduliði prests, skal eta helgan dóm. Hvorki hjábýlingur prests né kaupamaður skal eta helgan dóm.
En kaupi prestur þræl verði, þá skal hann eta af því, svo og sá er fæddur er í húsi hans. Þeir skulu eta af mat hans.
Eigi skal prestsdóttir, sé hún leikmanni gefin, eta af hinum heilögu fórnargjöfum.
En sé dóttir prests ekkja eða kona brott rekin og eigi ekki barna og sé horfin aftur í hús föður síns, eins og í æsku hennar, skal hún eta af mat föður síns. En enginn sá, er eigi heyrir skylduliði prests, skal eta af honum.
Nú etur einhver af vangá helgan dóm, og skal hann þá færa presti hinn helga dóm og greiða fimmtung umfram.
Þeir skulu eigi vanhelga helgigjafir Ísraelsmanna, það er þeir færa Drottni í lyftifórn,
svo að þeir baki þeim eigi sekt með misgjörð sinni, er þeir eta helgigjafir þeirra, því að ég er Drottinn, sá er helgar þá."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Mæl þú til Arons og sona hans og allra Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er einhver af húsi Ísraels eða útlendum mönnum í Ísrael ber fram fórnargjöf sína, hvort sem það er einhver heitfórn þeirra eða sjálfviljafórn, sem þeir færa Drottni að brennifórn,
þá skuluð þér bera hana svo fram, að hún afli yður velþóknunar: gallalausa, karlkyns, af nautum, sauðum eða geitum.
Eigi skuluð þér bera fram neitt það, er lýti hefir á sér, því að það mun eigi afla yður velþóknunar.
Nú vill einhver fórna Drottni heillafórn af nautum eða sauðfénaði, hvort heldur er til að efna heit sitt eða í sjálfviljafórn, þá skal það vera gallalaust, til þess að það afli honum velþóknunar. Ekkert lýti sé á því.
Það sem blint er eða beinbrotið eða sært eða með kýlum eða kláða eða útbrotum, það skuluð þér eigi færa Drottni, og eigi skuluð þér bera Drottni eldfórn af því á altarið.
En nautkind eða sauðkind, sem hefir lim ofskapaðan eða vanskapaðan, mátt þú fórna í sjálfviljafórn, en sem heitfórn mun hún eigi verða þóknanleg.
Það sem vanað er með kramningu, marningu, sliti eða skurði, skuluð þér eigi færa Drottni, og þér skuluð eigi slíkt gjöra í landi yðar.
Né heldur skuluð þér fá neitt af þessu hjá útlendum manni og bera það fram svo sem mat Guðs yðar, því að skemmd er á því. Lýti er á því, það mun eigi afla yður velþóknunar."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Þá er kálfur, lamb eða kið fæðist, skal það ganga sjö daga undir móðurinni, en átta daga gamalt og þaðan af eldra mun það verða þóknanlega meðtekið sem eldfórnargjöf Drottni til handa.
Þér skuluð eigi slátra kú eða á sama daginn og afkvæmi hennar.
Er þér fórnið Drottni þakkarfórn, þá fórnið henni svo, að hún afli yður velþóknunar.
Skal hún etin samdægurs, eigi skuluð þér leifa neinu af henni til morguns. Ég er Drottinn.
Varðveitið því skipanir mínar og haldið þær. Ég er Drottinn.
Og eigi skuluð þér vanhelga heilagt nafn mitt, svo að ég helgist meðal Ísraelsmanna. Ég er Drottinn, sá er yður helgar,
sá er leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera Guð yðar. Ég er Drottinn."

23

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur - þessar eru löghátíðir mínar.
Sex daga skal verk vinna, en sjöunda daginn skal vera helgihvíld, helg samkoma. Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er hvíldardagur Drottins í öllum bústöðum yðar.
Þessar eru löghátíðir Drottins, helgar samkomur, er þér skuluð boða, hverja á sínum tíma.
Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar Drottins.
Og fimmtánda dag hins sama mánaðar skal halda Drottni hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð.
Fyrsta daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.
Og þér skuluð færa Drottni eldfórn sjö daga. Sjöunda daginn er helg samkoma. Eigi skuluð þér þá fást við neina stritvinnu."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, og þér skerið þar upp korn, skuluð þér færa presti fyrsta kornbundinið af uppskeru yðar.
Og hann skal veifa kornbundininu frammi fyrir Drottni, svo að það afli yður velþóknunar, daginn eftir hvíldardaginn skal presturinn veifa því.
Þann dag, er þér veifið bundininu, skuluð þér fórna veturgamalli sauðkind gallalausri í brennifórn Drottni til handa.
Og matfórnin með henni skal vera tveir tíundupartar úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin, og dreypifórnin fjórðungur úr hín af víni.
Eigi skuluð þér eta brauð, bakað korn eða korn úr nýslegnum kornstöngum allt til þess dags, allt til þess er þér hafið fært fórnargjöf Guði yðar. Það skal vera yður ævarandi lögmál frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.
Þér skuluð telja frá næsta degi eftir hvíldardaginn, frá þeim degi, er þér færið bundinið í veififórn. Sjö vikur fullar skulu það vera.
Til næsta dags eftir sjöunda hvíldardaginn skuluð þér telja fimmtíu daga. Þá skuluð þér færa Drottni nýja matfórn.
Frá bústöðum yðar skuluð þér færa tvö brauð til veififórnar. Skulu þau vera gjörð af tveim tíundupörtum úr efu af fínu mjöli. Þau skulu vera bökuð með súrdeigi - frumgróðafórn Drottni til handa.
Og ásamt brauðinu skuluð þér fram bera sjö sauðkindur veturgamlar gallalausar, eitt ungneyti og tvo hrúta. Þau skulu vera brennifórn Drottni til handa ásamt matfórn og dreypifórnum þeim, er til þeirra heyra, eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.
Og þér skuluð fórna einum geithafri í syndafórn og tveim sauðkindum veturgömlum í heillafórn.
Og presturinn skal veifa þeim með frumgróðabrauðinu að veififórn frammi fyrir Drottni ásamt sauðkindunum tveimur. Skal það vera Drottni helgað handa prestinum.
Þennan sama dag skuluð þér láta boð út ganga, þér skuluð halda helga samkomu. Þér skuluð eigi vinna neina stritvinnu. Það er ævarandi lögmál fyrir yður í öllum bústöðum yðar frá kyni til kyns.
Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Í sjöunda mánuðinum, hinn fyrsta dag mánaðarins, skuluð þér halda helgihvíld, minningardag með básúnublæstri, helga samkomu.
Þér skuluð eigi vinna neina stritvinnu, og þér skuluð færa Drottni eldfórn."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Tíunda dag þessa hins sjöunda mánaðar er friðþægingardagurinn. Skuluð þér þá halda helga samkomu og fasta og færa Drottni eldfórn.
Þennan sama dag skuluð þér ekkert verk vinna, því að hann er friðþægingardagur, til þess að friðþægja fyrir yður frammi fyrir Drottni Guði yðar.
Því að hver sá, er eigi fastar þennan dag, skal upprættur verða úr þjóð sinni.
Og hvern þann, er eitthvert verk vinnur þennan dag, hann vil ég afmá úr þjóð hans.
Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.
Það skal vera yður helgihvíld og þér skuluð fasta. Hinn níunda dag mánaðarins að kveldi, frá aftni til aftans, skuluð þér halda hvíldardag yðar."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Á fimmtánda degi þessa hins sjöunda mánaðar skal halda Drottni laufskálahátíð sjö daga.
Fyrsta daginn skal vera helg samkoma, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu.
Sjö daga skuluð þér færa Drottni eldfórn. Áttunda daginn skuluð þér halda helga samkomu og færa Drottni eldfórn. Það er hátíðafundur, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu.
Þetta eru löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur til þess að færa Drottni eldfórn, brennifórn og matfórn, sláturfórn og dreypifórnir, hverja fórn á sínum degi,
auk hvíldardaga Drottins og auk gjafa yðar og auk allra heitfórna yðar og auk allra sjálfviljafórna yðar, er þér færið Drottni.
Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, er þér hafið hirt gróður landsins, skuluð þér halda hátíð Drottins sjö daga. Fyrsta daginn skal vera helgihvíld og áttunda daginn skal vera helgihvíld.
Og fyrsta daginn skuluð þér taka yður aldin af fögrum trjám, pálmviðargreinar og lim af þéttlaufguðum trjám og lækjarpíl, og þér skuluð fagna frammi fyrir Drottni, Guði yðar, í sjö daga.
Og þér skuluð halda hana helga sem hátíð Drottins sjö daga á ári. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns: Í sjöunda mánuðinum skuluð þér halda hana.
Skuluð þér búa í laufskálum sjö daga. Allir innbornir menn í Ísrael skulu þá búa í laufskálum,
svo að niðjar yðar viti, að ég lét Ísraelsmenn búa í laufskálum, þá er ég leiddi þá út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar."
Og Móse sagði Ísraelsmönnum löghátíðir Drottins.

24

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Bjóð þú Ísraelsmönnum að færa þér tæra olíu af steyttum olífuberjum til ljósastikunnar, svo að lampar verði ávallt settir upp.
Fyrir utan fortjald sáttmálsins í samfundatjaldinu skal Aron tilreiða þá frá kveldi til morguns frammi fyrir Drottni stöðuglega. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns.
Hann skal raða lömpunum á gull-ljósastikuna frammi fyrir Drottni stöðuglega.
Þú skalt taka fínt mjöl og baka úr því tólf kökur. Skulu vera tveir tíundupartar úr efu í hverri köku.
Og þú skalt leggja þær í tvær raðir, sex í hvora röð, á gullborðið frammi fyrir Drottni.
Og þú skalt láta hjá hvorri röð hreina reykelsiskvoðu, og skal hún vera sem ilmhluti af brauðinu, eldfórn Drottni til handa.
Á hverjum hvíldardegi skal hann raða þessu frammi fyrir Drottni stöðuglega. Er það ævinlegur sáttmáli af hálfu Ísraelsmanna.
Skal Aron og synir hans fá það og eta það á helgum stað, því að það heyrir honum sem háhelgur hluti af eldfórnum Drottins eftir ævinlegu lögmáli."
Sonur ísraelskrar konu gekk út meðal Ísraelsmanna, en faðir hans var egypskur. Lenti þá sonur ísraelsku konunnar í deilu við ísraelskan mann í herbúðunum.
Og sonur ísraelsku konunnar lastmælti nafninu og formælti. Þeir leiddu hann fyrir Móse. En móðir hans hét Selómít Díbrísdóttir, af ættkvísl Dans.
Og þeir settu hann í varðhald, til þess að þeim kæmi úrskurður fyrir munn Drottins.
Og Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Leið þú lastmælandann út fyrir herbúðirnar, og allir þeir, er heyrt hafa, skulu leggja hendur sínar á höfuð honum, og því næst skal allur söfnuðurinn grýta hann.
Og þú skalt tala við Ísraelsmenn og segja: ,Hver sá, er formælir Guði sínum, bakar sér synd.
Og sá er lastmælir nafni Drottins, skal líflátinn verða. Allur söfnuðurinn skal vægðarlaust grýta hann. Hvort heldur er útlendur maður eða innborinn, lastmæli hann nafninu, skal hann líflátinn.
Og ljósti einhver mann til bana, skal hann líflátinn verða.
Og sá, er lýstur skepnu til bana, skal bæta hana, líf fyrir líf.
Og veiti maður náunga sínum áverka, þá skal honum gjört hið sama, sem hann hefir gjört:
Beinbrot fyrir beinbrot, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hinn sami áverki, er hann hefir veitt öðrum, skal honum veittur.
Og sá, er lýstur skepnu til bana, skal bæta hana, en sá, er lýstur mann til bana, skal líflátinn.
Þér skuluð hafa ein lög, hvort heldur útlendur maður eða innborinn á í hlut, því að ég er Drottinn, Guð yðar.'"
Og Móse talaði við Ísraelsmenn, og þeir leiddu lastmælandann út fyrir herbúðirnar og lömdu hann grjóti. Og Ísraelsmenn gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

25

Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli og sagði:
"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, þá skal landið halda Drottni hvíld.
Sex ár skalt þú sá akur þinn og sex ár skalt nú sniðla víngarð þinn og safna gróðrinum.
En sjöunda árið skal vera helgihvíld fyrir landið, hvíldartími Drottni til handa. Akur þinn skalt þú ekki sá og víngarð þinn skalt þú ekki sniðla.
Korn það, er vex sjálfsáið eftir uppskeru þína, skalt þú eigi skera, og vínber óskorins vínviðar þíns skalt þú eigi lesa. Það skal vera hvíldarár fyrir landið.
Gróður landsins um hvíldartímann skal vera yður til fæðu, þér, þræli þínum og ambátt, kaupamanni þínum og útlendum búanda, er hjá þér dvelja.
Og fénaði þínum og villidýrunum, sem í landi þínu eru, skal allur gróður þess vera til fæðu.
Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö ár sjö sinnum, svo að tími þeirra sjö hvíldarára verði fjörutíu og níu ár.
Og þá skaltu í sjöunda mánuðinum, tíunda dag mánaðarins, láta hvellilúðurinn gjalla. Friðþægingardaginn skuluð þér láta lúðurinn gjalla um gjörvallt land yðar,
og helga þannig hið fimmtugasta árið og boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess. Það skal vera yður fagnaðarár. Þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns, og þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til ættar sinnar.
Fagnaðarár skal fimmtugasta árið vera yður. Þér skuluð eigi sá og eigi uppskera það, sem vex sjálfsáið það ár, né heldur skuluð þér þá lesa vínber af óskornum vínviðum.
Því að það er fagnaðarár. Það sé yður heilagt. Skuluð þér eta af jörðinni það er á henni sprettur.
Á þessu fagnaðarári skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns.
Þá er þú selur náunga þínum eitthvað eða þú kaupir eitthvað af náunga þínum, þá skuluð þér eigi sýna hver öðrum ójöfnuð.
Eftir því, hve mörg ár eru liðin frá fagnaðarári, skalt þú kaupa af náunga þínum, eftir því, hve uppskeruárin eru mörg, skal hann selja þér.
Því fleiri sem árin eru, því hærra skalt þú setja verðið, og því færri sem árin eru, því lægra skalt þú setja það, því að það er uppskerufjöldinn, sem hann selur þér.
Og þér skuluð eigi sýna hver öðrum ójöfnuð, heldur skalt þú óttast Guð þinn, því að ég er Drottinn, Guð yðar.
Fyrir því skuluð þér halda setningar mínar og varðveita lög mín og halda þau, svo að þér megið óhultir búa í landinu.
Þá mun landið gefa gróður sinn og þér eta yður sadda og búa óhultir í því.
Og ef þér segið: ,Hvað skulum vér eta sjöunda árið, þá er vér sáum eigi og hirðum eigi gróður vorn?'
þá vil ég senda yður blessun mína sjötta árið, og mun það leiða fram gróður til þriggja ára.
Og áttunda árið skuluð þér sá og eta af ávextinum, gamla forðanum. Til hins níunda árs, til þess er gróður þess fæst, skuluð þér eta gamla forðann.
Landið skal eigi selt fyrir fullt og allt, því að landið er mín eign, því að þér eruð dvalarmenn og hjábýlingar hjá mér.
Fyrir því skuluð þér í öllu eignarlandi yðar láta land falt til lausnar.
Ef bróðir þinn gjörist snauður og hann selur nokkuð af óðali sínu, þá skal lausnarmaður hans koma til, sá er það stendur næst, og leysa það, er bróðir hans hefir selt.
Nú hefir einhver engan lausnarmann, en er kominn svo í efni, að hann á fyrir lausnargjaldinu.
Þá skal hann telja árin frá því, er hann seldi, en það, sem yfir hefir, skal hann endurgreiða manni þeim, er hann seldi, og hverfur hann þá aftur til óðals síns.
En hafi hann ekki efni til að leysa, þá skal það, er hann hefir selt, vera í höndum kaupanda til fagnaðarárs. En á fagnaðarárinu gengur það úr eigu hans, og hverfur hann þá aftur til óðals síns.
Nú selur einhver íbúðarhús í múrgirtri borg, og skal honum heimilt að leysa það í heilt ár frá því, er hann seldi. Lausnarréttur hans skal vera tímabundinn.
En sé það ekki leyst áður en fullt ár er liðið, þá skal hús í múrgirtri borg verða full eign kaupanda og niðja hans. Það skal eigi ganga úr eigu hans fagnaðarárið.
En hús í þorpum, sem eigi eru múrgirt allt í kring, skulu talin með landi sveitarinnar. Þau skal jafnan heimilt að leysa, og þau skulu ganga úr eigu kaupanda á fagnaðarárinu.
Borgir levítanna, húsin í eignarborgum þeirra, skal levítunum heimilt að leysa á hverjum tíma sem er.
Og ef einhver af levítunum leysir eigi, þá skal selt hús ganga úr eigu kaupanda á fagnaðarárinu, sé það í eignarborg hans, því að húsin í borgum levítanna eru óðalseign þeirra meðal Ísraelsmanna.
En landið, er liggur undir borgir þeirra, skal eigi selja, því að það er ævinleg eign þeirra.
Ef bróðir þinn kemst í fátækt og verður ósjálfbjarga hjá þér, þá skalt þú styðja hann sem dvalarmann og hjábýling, svo að hann geti lifað hjá þér.
Þú skalt eigi taka fjárleigu af honum né aukagjald, heldur skalt þú óttast Guð þinn, svo að bróðir þinn geti lifað hjá þér.
Þú skalt eigi ljá honum silfur þitt gegn leigu, né heldur hjálpa honum um matvæli þín gegn aukagjaldi.
Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að gefa yður Kanaanland og vera Guð yðar.
Komist bróðir þinn í fátækt hjá þér og selur sig þér, þá skalt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu.
Sem kaupamaður, sem hjábýlingur skal hann hjá þér vera. Hann skal vinna hjá þér til fagnaðarárs.
En þá skal hann fara frá þér, og börn hans með honum, og hverfa aftur til ættar sinnar, og hann skal hverfa aftur til óðals feðra sinna.
Því að þeir eru þjónar mínir, sem ég hefi leitt út af Egyptalandi. Eigi skulu þeir seldir mansali.
Þú skalt eigi drottna yfir honum með hörku, heldur skalt þú óttast Guð þinn.
Viljir þú fá þér þræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa þræla og ambáttir af þjóðunum, sem umhverfis yður búa.
Svo og af börnum hjábýlinga, er hjá yður dvelja, af þeim skuluð þér kaupa og af ættliði þeirra, sem hjá yður er og þeir hafa getið í landi yðar, og þau skulu verða eign yðar.
Og þér skuluð láta þá ganga í arf til barna yðar eftir yður, svo að þau verði eign þeirra. Þér skuluð hafa þau að ævinlegum þrælum. En yfir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, skuluð þér eigi drottna með hörku, einn yfir öðrum.
Komist dvalarmaður eða hjábýlingur í efni hjá þér, en bróðir þinn kemst í fátækt hjá honum og selur sig dvalarmanni eða hjábýlingi hjá þér eða afkomanda dvalarmanns ættar,
þá skal heimilt að leysa hann eftir að hann hefir selt sig. Heimilt skal einhverjum af bræðrum hans að leysa hann,
eða föðurbróður hans eða bræðrungi hans eða einhverjum náfrænda í ætt hans, eða komist hann sjálfur í efni, þá er honum heimilt að leysa sig.
Og við þann, sem keypti hann, skal hann reikna frá árinu, er hann seldi sig honum, til fagnaðarársins, og söluverðið skal fara eftir árafjöldanum. Skal hann vera hjá honum ákveðinn tíma, svo sem kaupamaður væri.
Ef enn eru mörg ár eftir, þá skal hann að tiltölu við árafjöldann endurgreiða lausnargjald sitt af fé því, er hann var keyptur fyrir,
en ef fá ár eru eftir til fagnaðarárs, þá skal hann og reikna honum þau. Eftir áratölunni skal hann endurgreiða lausnargjald sitt.
Skal hann sæta sömu kjörum hjá honum eins og sá, sem er kaupamaður ár eftir ár. Hann skal eigi drottna yfir honum með hörku að þér ásjáandi.
En sé hann ekki leystur með þessum hætti, þá skal hann ganga úr eigu kaupanda fagnaðarárið, hann og börn hans með honum.
Því að Ísraelsmenn eru þjónar mínir, mínir þjónar eru þeir, sem ég hefi leitt út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar.

26

Þér skuluð eigi gjöra yður falsguði, né heldur reisa yður skurðgoð eða merkissteina, og eigi setja upp myndasteina í landi yðar til þess að tilbiðja hjá þeim, því að ég er Drottinn, Guð yðar.
Mína hvíldardaga skuluð þér halda og fyrir mínum helgidómi lotningu bera. Ég er Drottinn.
Ef þér breytið eftir mínum setningum og varðveitið mínar skipanir og haldið þær,
þá skal ég jafnan senda yður regn á réttum tíma, og landið mun gefa ávöxt sinn og trén á mörkinni bera aldin sín.
Skal þá ná saman hjá yður þresking og vínberjatekja, og vínberjatekja og sáning, og þér skuluð eta yður sadda af brauði og búa öruggir í landi yðar.
Ég vil gefa frið í landinu, og þér skuluð leggjast til hvíldar og enginn skal hræða yður. Óargadýrum vil ég eyða úr landinu, og sverð skal ekki fara um land yðar.
Og þér skuluð elta óvini yðar, og frammi fyrir yður skulu þeir fyrir sverði hníga.
Og fimm af yður skulu elta hundrað, og hundrað af yður skulu elta tíu þúsundir, og óvinir yðar skulu frammi fyrir yður fyrir sverði hníga.
Ég vil snúa mér til yðar og gjöra yður frjósama og margfalda yður, og ég vil gjöra sáttmála minn við yður.
Og þér munuð eta fyrnt korn, gamlan forða, og þér munuð bera fyrnda kornið út fyrir hinu nýja.
Og ég mun reisa búð mína meðal yðar, og sál mín skal ekki hafa óbeit á yður.
Og ég mun ganga meðal yðar og vera Guð yðar, og þér skuluð vera mín þjóð.
Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi, til þess að þér væruð eigi þrælar þeirra. Ég braut sundur ok-stengur yðar og lét yður ganga beina.
En ef þér hlýðið mér ekki og haldið ekki allar þessar skipanir,
og ef þér hafnið setningum mínum og sál yðar hefir óbeit á dómum mínum, svo að þér haldið ekki allar skipanir mínar, en rjúfið sáttmála minn,
þá vil ég gjöra yður þetta: Ég vil vitja yðar með skelfingu, tæringu og köldu, svo að augun slokkna og lífið fjarar út. Og þér skuluð sá sæði yðar til einskis, því að óvinir yðar skulu eta það.
Og ég vil snúa augliti mínu gegn yður, og þér skuluð bíða ósigur fyrir óvinum yðar, og fjandmenn yðar skulu drottna yfir yður, og þér skuluð flýja, þótt enginn elti yður.
En ef þér viljið þá enn ekki hlýða mér, þá vil ég enn refsa yður sjö sinnum fyrir syndir yðar.
Og ég vil brjóta ofurdramb yðar, og ég vil gjöra himininn yfir yður sem járn og land yðar sem eir.
Þá mun kraftur yðar eyðast til ónýtis, land yðar skal eigi gefa ávöxt sinn og trén á jörðinni eigi bera aldin sín.
Og ef þér gangið í gegn mér og viljið ekki hlýða mér, þá vil ég enn slá yður sjö sinnum, eins og syndir yðar eru til.
Og ég vil hleypa dýrum merkurinnar inn á meðal yðar, og þau skulu gjöra yður barnlausa, drepa fénað yðar og gjöra yður fámenna, og vegir yðar skulu verða auðir.
Og ef þér skipist ekki við þessa tyftun mína, heldur gangið í gegn mér,
þá vil ég einnig ganga gegn yður, þá vil ég einnig slá yður sjö sinnum fyrir syndir yðar.
Og ég vil láta sverð koma yfir yður, er hefna skal sáttmálans. Munuð þér þá þyrpast inn í borgir yðar, en ég vil senda drepsótt meðal yðar, og þér skuluð seldir í óvina hendur.
Þá er ég brýt staf brauðsins fyrir yður, munu tíu konur baka yður brauð í einum ofni og færa yður brauðið aftur eftir vigt, og þér munuð eta og ekki verða mettir.
Og ef þér hlýðið mér eigi þrátt fyrir þetta og gangið í gegn mér,
þá vil ég einnig ganga í gegn yður með þungri reiði og refsa yður sjö sinnum fyrir syndir yðar.
Og þér skuluð eta hold sona yðar, og hold dætra yðar skuluð þér eta.
Og ég vil leggja fórnarhæðir yðar í eyði og kollvarpa sólsúlum yðar og kasta hræjum yðar ofan á búkana af skurðgoðum yðar, og sálu minni mun bjóða við yður.
Og ég vil leggja borgir yðar í rústir og eyða helgidóma yðar og ekki kenna þægilegan ilm af fórnum yðar.
Og ég vil eyða landið, svo að óvinum yðar, sem í því búa, skal ofbjóða.
En yður vil ég tvístra meðal þjóðanna og bregða sverði á eftir yður, og land yðar skal verða auðn og borgir yðar rústir.
Þá skal landið fá hvíldarár sín bætt upp alla þá stund, sem það er í eyði og þér eruð í landi óvina yðar. Þá skal landið hvílast og bæta upp hvíldarár sín.
Alla þá stund, sem það er í eyði, skal það njóta hvíldar, þeirrar hvíldar, sem það eigi naut á hvíldarárum yðar, er þér bjugguð í því.
Og þá af yður, sem eftir verða, vil ég gjöra svo huglausa í löndum óvina þeirra, að þyturinn af fjúkandi laufblaði skal reka þá á flótta og þeir flýja eins og menn flýja undan sverði, og þeir skulu falla, þó að enginn elti.
Og þeir skulu hrasa hver um annan, eins og flýja skyldi undan sverði, þó að enginn elti, og þér skuluð eigi fá staðist fyrir óvinum yðar.
Og þér skuluð farast meðal þjóðanna, og land óvina yðar skal upp eta yður.
Og þeir af yður, sem eftir verða, skulu fyrir sakir misgjörðar sinnar veslast upp í löndum óvina yðar, og þeir skulu veslast upp sakir misgjörða feðra sinna eins og þeir.
Þá munu þeir játa misgjörð sína og misgjörð feðra sinna, er þeir frömdu með því að rjúfa tryggðir við mig, og hversu þeir hafa gengið í gegn mér -
fyrir því gekk ég og í gegn þeim og flutti þá í land óvina þeirra -, já, þá mun óumskorið hjarta þeirra auðmýkja sig og þeir fá misgjörð sína bætta upp.
Og þá vil ég minnast sáttmála míns við Jakob, og sáttmála míns við Ísak og sáttmála míns við Abraham vil ég einnig minnast, og landsins vil ég minnast.
Og landið skal verða yfirgefið af þeim og fá hvíldarár sín bætt upp, meðan það er í eyði og þeir eru á brottu, og þeir skulu fá misgjörð sína bætta upp fyrir þá sök og vegna þess, að þeir höfnuðu lögum mínum og sál þeirra hafði óbeit á setningum mínum.
En jafnvel þá, er þeir eru í landi óvina sinna, hafna ég þeim ekki og býður mér ekki við þeim, svo að ég vilji aleyða þeim og rjúfa þannig sáttmála minn við þá, því að ég er Drottinn, Guð þeirra.
Og sökum þeirra vil ég minnast sáttmálans við forfeður þeirra, er ég leiddi út af Egyptalandi í augsýn þjóðanna til þess að vera Guð þeirra. Ég er Drottinn."
Þetta eru setningar þær, ákvæði og lög, sem Drottinn setti milli sín og Ísraelsmanna á Sínaífjalli fyrir Móse.

27

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Ef maður gjörir heit og heitir Drottni mönnum eftir mati þínu,
þá skalt þú meta karlmann frá tvítugsaldri til sextugs á fimmtíu sikla silfurs eftir helgidóms sikli.
Sé það kona, þá skalt þú meta hana á þrjátíu sikla.
Sé það frá fimm til tuttugu ára að aldri, þá skalt þú meta pilt á tuttugu sikla, en stúlku á tíu sikla.
Sé það frá eins mánaðar til fimm ára að aldri, þá skalt þú meta svein á fimm sikla silfurs, en mey skalt þú meta á þrjá sikla silfurs.
Sé það sextugt og þaðan af eldra, þá skalt þú, sé það karlmaður, meta hann á fimmtán sikla, en kvenmann á tíu sikla.
En eigi hann ekki fyrir því, er þú metur, þá skal leiða hann fyrir prest, og prestur skal meta hann. Eftir efnahag þess, er heitið gjörir, skal prestur meta hann.
Færi menn Drottni fórnargjöf af fénaði, þá skal allt það af honum heilagt vera, sem Drottni er gefið.
Eigi má hafa kaup á því eða skipta því, vænu fyrir rýrt eða rýru fyrir vænt. Nú eru skipti höfð á skepnum og skulu þær vera heilagar, bæði sú, er látin er í skiptin, og sú, er fyrir kemur.
En sé það einhver óhreinn fénaður, er eigi má færa Drottni að fórnargjöf, þá skal leiða skepnuna fyrir prest.
Og prestur skal meta hana, eftir því sem hún er væn eða rýr til, og skal mat þitt, prestur, standa.
En vilji hann leysa hana, skal hann gjalda fimmtungi meira en þú metur.
Nú helgar maður Drottni hús sitt að helgigjöf, og skal þá prestur virða það eftir því sem það er gott eða lélegt til. Skal standa við það, sem prestur metur.
En vilji sá, er hús sitt hefir helgað, leysa það, skal hann gjalda fimmtung umfram virðingarverð þitt, og er það þá hans.
Helgi maður Drottni nokkuð af óðalslandi sínu, þá skal mat þitt fara eftir útsæðinu: kómer útsæðis af byggi á fimmtíu sikla silfurs.
Helgi hann land sitt frá fagnaðarári, þá skal standa við mat þitt.
En helgi hann land sitt eftir fagnaðarár, þá skal prestur reikna honum verðið eftir árunum, sem eftir eru til fagnaðarárs, og skal þá dregið af mati þínu.
En vilji sá, er helgað hefir land sitt, leysa það, skal hann gjalda fimmtung umfram verð það, er þú metur, og skal hann þá halda því.
En leysi hann eigi landið, en selur landið öðrum manni skal eigi heimilt að leysa það framar,
heldur skal landið, er það losnar á fagnaðarárinu, verða helgað Drottni, eins og bannfært land. Skal það verða eign prests.
Helgi hann Drottni keypt land, sem eigi er af óðalslandi hans,
þá skal prestur reikna fyrir hann, hve mikil upphæðin verði eftir mati þínu til fagnaðarárs, og skal hann þann dag greiða það, er þú metur, svo sem helgigjöf Drottni til handa.
En fagnaðarárið hverfur landið aftur undir þann, er hann keypti það af, undir þann, er á það með óðalsrétti.
Og allt mat þitt skal vera í helgidóms siklum. Skulu vera tuttugu gerur í sikli.
En frumburði af fénaði, sem Drottni heyra, fyrir því að þeir eru frumbornir, skal enginn helga. Hvort heldur er nautgripur eða sauðkind, þá heyrir það Drottni.
En sé það af hinum óhreina fénaði, þá skal hann leysa það eftir mati þínu og gjalda fimmtung umfram, en sé það ekki leyst, skal selja það eftir mati þínu.
Þó skal eigi selja eða leysa nokkurn hlut bannfærðan, það er einhver helgar Drottni með bannfæringu af einhverju því, er hann á, hvort heldur er maður, skepna eða óðalsland hans. Sérhver hlutur bannfærður er alhelgaður Drottni.
Engan bannfærðan mann má leysa, hann skal líflátinn verða.
Öll jarðartíund heyrir Drottni, hvort heldur er af ávexti jarðar eða aldinum trjáa. Hún er helguð Drottni.
En vilji einhver leysa nokkuð af tíund sinni, þá skal hann gjalda fimmtung umfram.
Öll tíund af nautgripum og sauðfé, öllu því, er gengur undir hirðisstafinn, hver tíunda skepna skal vera helguð Drottni.
Skal eigi skoða, hvort hún sé væn eða rýr, og eigi hafa skipti á henni. En séu höfð skipti á henni, þá skal bæði hún og sú, er fyrir kemur, vera heilög. Eigi má leysa hana."
Þetta eru skipanir þær, sem Drottinn bauð Móse að flytja Ísraelsmönnum á Sínaífjalli.

3

Sé fórn hans heillafórn og færi hann hana af nautpeningi, hvort heldur er karlkyns eða kvenkyns, þá sé það gallalaust, er hann fram ber fyrir Drottin.
Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð fórnarinnar og slátra henni fyrir dyrum samfundatjaldsins, en synir Arons, prestarnir, skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið.
Skal hann síðan færa Drottni eldfórn af heillafórninni: netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn,
bæði nýrun og nýrnamörinn, sem liggur innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá.
Og synir Arons skulu brenna það á altarinu ofan á brennifórninni, sem liggur ofan á viðinum, sem lagður er á eldinn, til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin.
Sé fórnargjöfin, sem hann færir Drottni að heillafórn, af sauðfénaði, þá sé það, er hann fram ber, gallalaust, hvort heldur það er karlkyns eða kvenkyns.
Færi hann sauðkind að fórnargjöf, þá færi hann hana fram fyrir Drottin.
Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð fórnarinnar og slátra henni fyrir framan samfundatjaldið, en synir Arons skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið.
Skal hann síðan af heillafórninni færa Drottni í eldfórn mörinn úr henni: rófuna alla - skal taka hana af fast við rófubeinið, - netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn,
bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá.
Og presturinn skal brenna þetta á altarinu sem eldfórnarmat Drottni til handa.
Sé fórnargjöf hans geitsauður, þá skal hann færa hann fram fyrir Drottin,
leggja hönd sína á höfuð hans og slátra honum fyrir framan samfundatjaldið, en synir Arons skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið.
Því næst skal hann fram bera af honum sem fórnargjöf, sem eldfórn Drottni til handa, netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn,
bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá.
Og presturinn skal brenna það á altarinu sem eldfórnarmat þægilegs ilms; allur mör heyrir Drottni til.
Skal það vera ævinlegt lögmál hjá yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar: Þér skuluð engan mör og ekkert blóð eta."

4

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Nú syndgar einhver af vangá í einhverju því, sem Drottinn hefir bannað að gjöra, og gjörir eitthvað af því.
Ef smurði presturinn syndgar og bakar fólkinu sekt, þá skal hann fyrir synd sína, er hann hefir drýgt, færa Drottni ungneyti gallalaust til syndafórnar.
Skal hann leiða uxann að dyrum samfundatjaldsins fram fyrir Drottin og leggja hönd sína á höfuð uxans og slátra uxanum frammi fyrir Drottni.
Skal smurði presturinn taka nokkuð af blóði uxans og bera það inn í samfundatjaldið.
Skal presturinn drepa fingri sínum í blóðið og stökkva sjö sinnum nokkru af blóðinu frammi fyrir Drottni, fyrir framan fortjald helgidómsins.
Því næst skal presturinn ríða nokkru af blóðinu á horn ilmreykelsisaltarisins, er stendur í samfundatjaldinu frammi fyrir Drottni, en öllu hinu blóði uxans skal hella niður við brennifórnaraltarið, er stendur við dyr samfundatjaldsins.
Síðan skal hann taka allan mörinn úr syndafórnaruxanum, - netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn,
bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið; við nýrun skal hann taka það frá -,
eins og hann er tekinn úr heillafórnarnautinu, og skal presturinn brenna þetta á brennifórnaraltarinu.
En húð uxans og allt kjötið, ásamt höfðinu og fótunum, innýflunum og gorinu,
allan uxann skal hann færa út fyrir herbúðirnar á hreinan stað, þangað sem öskunni er hellt út, leggja hann á við og brenna í eldi. Þar sem öskunni er hellt út skal hann brenndur.
Ef allur Ísraels lýður misgjörir af vangá og það er söfnuðinum hulið og þeir gjöra eitthvað, sem Drottinn hefir bannað, og falla í sekt,
þá skal söfnuðurinn, þegar syndin, sem þeir hafa drýgt, er vitanleg orðin, færa ungneyti til syndafórnar og leiða það fram fyrir samfundatjaldið.
Og skulu öldungar safnaðarins leggja hendur sínar á höfuð uxans frammi fyrir Drottni og slátra uxanum frammi fyrir Drottni.
Og smurði presturinn skal bera nokkuð af blóði uxans inn í samfundatjaldið.
Og skal presturinn drepa fingri sínum í blóðið og stökkva því sjö sinnum frammi fyrir Drottni, fyrir framan fortjaldið.
Og nokkru af blóðinu skal hann ríða á horn altarisins, sem er frammi fyrir Drottni, inni í samfundatjaldinu, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við brennifórnaraltarið, sem er við dyr samfundatjaldsins.
Og hann skal taka allan mörinn úr honum og brenna á altarinu.
Þannig skal hann fara með uxann. Eins og hann fór með syndafórnaruxann, svo skal hann með hann fara. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir þá, og þeim mun fyrirgefið verða.
Skal hann síðan færa uxann út fyrir herbúðirnar og brenna hann, eins og hann brenndi hinn fyrri uxann. Er það syndafórn safnaðarins.
Þegar leiðtogi syndgar og gjörir af vangá eitthvað, sem Drottinn Guð hans hefir bannað, og verður fyrir það sekur,
og honum er gjörð vitanleg synd sú, er hann hefir drýgt, þá skal hann færa að fórnargjöf geithafur gallalausan.
Skal hann leggja hönd sína á höfuð hafursins og slátra honum þar sem brennifórnunum er slátrað, frammi fyrir Drottni. Það er syndafórn.
Skal presturinn þá taka nokkuð af blóði syndafórnarinnar með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en hinu blóðinu skal hann hella niður við brennifórnaraltarið.
En allan mörinn úr honum skal hann brenna á altarinu, eins og mörinn úr heillafórninni. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann vegna syndar hans, og honum mun fyrirgefið verða.
Ef einhver alþýðumaður syndgar af vangá með því að gjöra eitthvað það, sem Drottinn hefir bannað, og verður sekur,
og honum er gjörð vitanleg synd sú, sem hann hefir drýgt, þá skal hann færa að fórnargjöf geit gallalausa, fyrir synd þá, sem hann hefir drýgt.
Skal hann leggja hönd sína á höfuð syndafórnarinnar og slátra syndafórninni þar sem brennifórnum er slátrað.
Síðan skal presturinn taka nokkuð af blóðinu með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við altarið.
En allan mörinn skal hann taka frá, eins og mörinn úr heillafórninni var tekinn frá, og skal presturinn brenna hann á altarinu til þægilegs ilms fyrir Drottin. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann, og honum mun fyrirgefið verða.
Fram beri hann sauðkind að fórnargjöf til syndafórnar, þá skal það, er hann fram ber, vera ásauður gallalaus.
Skal hann leggja hönd sína á höfuð syndafórnarinnar og slátra henni til syndafórnar þar sem brennifórnum er slátrað.
Skal þá presturinn taka nokkuð af blóði syndafórnarinnar með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við altarið.
En allan mörinn skal hann taka frá, eins og sauðamörinn er tekinn úr heillafórninni, og skal presturinn brenna hann á altarinu ofan á eldfórnum Drottins. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann vegna syndar þeirrar, er hann hefir drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.

5

Nú syndgar einhver, með því að hann hefir heyrt formælingu og getur vitni borið, hvort sem hann hefir séð það sjálfur eða orðið þess vísari, en segir eigi til, og bakar sér þannig sekt,
eða einhver snertir einhvern óhreinan hlut, hvort það er heldur hræ af óhreinu villidýri eða hræ af óhreinum fénaði eða hræ af óhreinu skriðkvikindi og hann veit ekki af því og verður þannig óhreinn og sekur,
eða hann snertir mann óhreinan, hverrar tegundar sem óhreinleikinn er, sem hann er óhreinn af, og hann veit eigi af því, en verður þess síðar vís og verður þannig sekur,
eða fleipri einhver þeim eiði af munni fram, að hann skuli gjöra eitthvað, illt eða gott, hvað sem það nú kann að vera, sem menn fleipra út úr sér með eiði, og hann veit eigi af því, en verður þess síðar vís og verður sekur fyrir eitthvað af þessu, -
verði nokkur sekur fyrir eitthvað af þessu, þá skal hann játa synd sína.
Og hann skal til sektarbóta fyrir synd þá, sem hann hefir drýgt, færa Drottni ásauð úr hjörðinni, ásauð eða geit, í syndafórn. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann vegna syndar hans.
En ef hann á ekki fyrir kind, þá skal hann í sektarbætur fyrir misgjörð sína færa Drottni tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, aðra í syndafórn, en hina í brennifórn.
Hann skal færa þær prestinum, og hann skal fram bera þá fyrr, er til syndafórnar er ætluð. Skal hann klípa höfuðið af hálsinum, en slíta þó eigi frá,
stökkva nokkru af blóði syndafórnarinnar á hlið altarisins, en það, sem eftir er af blóðinu, skal kreist úr og látið drjúpa niður við altarið. Það er syndafórn.
En hina skal hann tilreiða í brennifórn að réttum sið. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann vegna syndar þeirrar, sem hann hefir drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.
En ef hann á ekki fyrir tveimur turtildúfum eða tveimur ungum dúfum, þá skal hann fram bera að fórnargjöf fyrir misgjörð sína tíunda part úr efu af fínu mjöli í syndafórn. Skal hann eigi hella olíu á það né heldur láta á það reykelsiskvoðu, því að það er syndafórn.
Hann skal færa það prestinum, og presturinn skal taka af því hnefafylli sína sem ilmhluta fórnarinnar og brenna á altarinu ofan á eldfórnum Drottins. Það er syndafórn.
Og presturinn skal friðþægja fyrir hann fyrir synd þá, er hann hefir drýgt með einhverju þessu, og honum mun fyrirgefið verða. En hitt fái presturinn, eins og matfórnina."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Nú sýnir einhver þá sviksemi, að draga undan eitthvað af því, sem Drottni er helgað, þá skal hann í sektarbætur færa Drottni hrút gallalausan úr hjörðinni, sem að þínu mati sé eigi minna en tveggja sikla virði, eftir helgidóms sikli, til sektarfórnar.
Og það, sem hann hefir dregið undan af helgum hlutum, skal hann að fullu bæta og gjalda fimmtungi meira. Skal hann færa það prestinum, og presturinn skal friðþægja fyrir hann með sektarfórnarhrútnum, og mun honum fyrirgefið verða.
Nú syndgar einhver og gjörir eitthvað, sem Drottinn hefir bannað, og veit eigi af því og verður þannig sekur og misgjörð hvílir á honum,
þá skal hann færa prestinum hrút gallalausan úr hjörðinni, eftir mati þínu, til sektarfórnar. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann fyrir vangæslusynd þá, er hann hefir óafvitandi drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.
Það er sektarfórn. Hann er sannlega sekur orðinn við Drottin."

6

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Nú syndgar einhver og sýnir sviksemi gegn Drottni og þrætir við náunga sinn fyrir það, sem honum hefir verið trúað fyrir, eða honum hefir verið í hendur selt, eða hann hefir rænt, eða hann hefir haft með ofríki af náunga sínum,
eða hann hefir fundið eitthvað, sem týnst hefir, og þrætir fyrir það, eða hann með meinsæri synjar fyrir einhvern þann verknað, er menn fremja sér til syndar, -
þegar hann syndgar þannig og verður sekur, þá skal hann skila því aftur, sem hann hefir rænt eða með ofríki haft af öðrum eða honum hefir verið trúað fyrir, eða hinu týnda, sem hann hefir fundið,
eða hverju því, er hann hefir synjað fyrir með meinsæri, og skal hann bæta það fullu verði og gjalda fimmtungi meira. Skal hann greiða það eiganda á þeim degi, er hann færir sektarfórn sína.
En í bætur Drottni til handa skal hann færa prestinum hrút gallalausan úr hjörðinni, eftir þínu mati, til sektarfórnar.
Og presturinn skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni, og honum mun fyrirgefið verða, - hvað sem menn fremja sér til sektar."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Bjóð Aroni og sonum hans á þessa leið: Þessi eru ákvæðin um brennifórnina: Brennifórnin skal vera á eldstæði altarisins alla nóttina til morguns, og skal altariseldinum haldið lifandi með því.
Og presturinn skal færa sig í línklæði sín og draga línbrækur yfir hold sitt, taka síðan burt öskuna eftir brennifórnina, er eldurinn hefir eytt á altarinu, og steypa henni niður við hlið altarisins.
Þá skal hann færa sig úr klæðum sínum og fara í önnur klæði og bera öskuna út fyrir herbúðirnar á hreinan stað.
Og eldinum á altarinu skal haldið lifandi með því. Hann skal eigi slokkna. Og presturinn skal á hverjum morgni leggja við að eldinum, og hann skal raða brennifórninni ofan á hann og brenna mörinn úr heillafórnunum á honum.
Eldurinn skal sífellt brenna á altarinu og aldrei slokkna.
Þessi eru ákvæðin um matfórnina: Synir Arons skulu fram bera hana fyrir Drottin, að altarinu.
Og hann skal taka af því hnefafylli sína, af fínamjöli matfórnarinnar og olíunni, og alla reykelsiskvoðuna, sem er á matfórninni, og brenna á altarinu til þægilegs ilms, sem ilmhluta hennar fyrir Drottin.
En það, sem eftir er af henni, skulu Aron og synir hans eta. Ósýrt skal það etið á helgum stað, í forgarði samfundatjaldsins skulu þeir eta það.
Eigi má baka það með súrdeigi. Ég gef þeim það í þeirra hluta af eldfórnum mínum. Það er háheilagt, eins og syndafórnin og sektarfórnin.
Allt karlkyn meðal Arons niðja má eta það, frá kyni til kyns ber yður það af eldfórnum Drottins um aldur og ævi. Hver sem snertir það skal vera heilagur."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Þessi er fórnargjöf Arons og sona hans, sem þeir skulu færa Drottni á smurningardegi sínum: tíundi partur úr efu af fínu mjöli í stöðuga matfórn, helmingurinn af því að morgni og helmingurinn að kveldi.
Skal tilreiða hana á pönnu með olíu. Þú skalt fram bera hana samanhrærða. Þú skalt brjóta hana í stykki og fórna henni til þægilegs ilms fyrir Drottin.
Og presturinn, sá af sonum hans, sem smurður er í hans stað, skal tilreiða hana. Er það ævarandi lögmál Drottins, öll skal hún brennd.
Allar matfórnir presta skulu vera alfórnir. Þær má ekki eta."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Mæl til Arons og sona hans og seg: Þessi eru ákvæðin um syndafórnina: Á þeim stað, sem brennifórnunum er slátrað, skal syndafórninni slátrað, frammi fyrir Drottni. Hún er háheilög.
Presturinn, sem fram ber syndafórnina, skal eta hana, á helgum stað skal hún etin, í forgarði samfundatjaldsins.
Hver sá, er snertir kjöt hennar, skal vera heilagur. Og þegar eitthvað af blóðinu spýtist á klæðin, þá skalt þú þvo það, sem spýtst hefir á, á helgum stað.
Og leirkerið, sem hún hefir verið soðin í, skal brjóta, en hafi hún verið soðin í eirkeri, þá skal fægja það og skola í vatni.
Allt karlkyn meðal prestanna má eta hana. Hún er háheilög.
En enga syndafórn má eta, hafi nokkuð af blóði hennar verið borið inn í samfundatjaldið til friðþægingar í helgidóminum, heldur skal hún brennd í eldi.

7

Þessi eru ákvæðin um sektarfórnina: Hún er háheilög.
Þar sem brennifórninni er slátrað, skal og sektarfórninni slátrað, og skal stökkva blóði hennar allt í kring utan á altarið.
Og öllum mörnum úr henni skal fórna: rófunni, netjunni, sem hylur iðrin,
báðum nýrunum, nýrnamörnum, sem liggur innan á mölunum, og stærra lifrarblaðinu. Við nýrun skal taka það frá.
Og presturinn skal brenna þetta á altarinu sem eldfórn Drottni til handa. Er það sektarfórn.
Allt karlkyn meðal prestanna má eta hana; á helgum stað skal hún etin; hún er háheilög.
Skal með sektarfórn farið á sama hátt og syndafórn; eru sömu ákvæði um báðar: Presturinn, sem með þeim friðþægir, skal fá þær.
Presturinn, sem fram ber brennifórn einhvers manns, skal fá skinnið af brennifórninni, sem hann fram ber.
Og sérhverja matfórn, sem í ofni er bökuð eða tilreidd í suðupönnu eða á steikarpönnu, fái presturinn, sem fram ber hana.
En sérhver matfórn, olíublönduð eða þurr, skal tilheyra öllum sonum Arons, svo einum sem öðrum.
Þessi eru ákvæðin um heillafórnina, sem Drottni er færð:
Ef einhver fram ber hana til þakkargjörðar, þá skal hann auk þakkarfórnarinnar fram bera ósýrðar kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð og olíublandaðar kökur, hrærðar úr fínu mjöli.
Ásamt kökum úr sýrðu deigi skal hann fram bera þessa fórnargáfu sína, auk heilla-þakkarfórnarinnar.
Og hann skal af henni fram bera eina köku af hverri tegund fórnargáfunnar sem fórnargjöf Drottni til handa. Skal presturinn, er stökkvir blóði heillafórnarinnar, fá hana.
En kjötið af heilla-þakkarfórninni skal etið sama dag sem fórnin er fram borin. Eigi skal geyma neitt af því til morguns.
Sé sláturfórn hans heitfórn eða sjálfviljug fórn, þá skal hún etin sama dag sem hann fram ber sláturfórn sína. Þó má eta það, sem af gengur, daginn eftir.
En það, sem verður eftir af kjöti sláturfórnarinnar á þriðja degi, skal brenna í eldi.
En sé á þriðja degi nokkuð etið af kjöti heillafórnarinnar, þá mun það eigi verða velþóknanlegt, það skal eigi tilreiknast þeim, er fram bar það. Það skal talið skemmt kjöt. Á hverjum þeim, er etur af því, skal misgjörð hvíla.
Og það kjöt, sem komið hefir við eitthvað óhreint, skal eigi eta, heldur skal brenna það í eldi. Hvað kjötið að öðru leyti snertir, þá má hver, sem hreinn er, kjöt eta.
En hver sá, sem etur kjöt af heillafórn, sem Drottni er færð, á meðan hann er óhreinn, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni.
Og hver sem snertir nokkuð óhreint, hvort heldur það er óhreinn maður eða óhrein skepna, eða hvaða óhrein viðurstyggð sem er, og etur þó af heillafórnarkjöti, sem Drottni er fært, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Engan mör úr nautum, sauðum eða geitum megið þér eta.
En mör úr sjálfdauðum skepnum eða dýrrifnum má nota til hvers sem vera skal, en með engu móti megið þér eta hann.
Því að hver sá, sem etur mör úr þeirri skepnu, sem Drottni er færð eldfórn af, sá sem etur hann skal upprættur verða úr þjóð sinni.
Eigi skuluð þér heldur nokkurs blóðs neyta í neinum af bústöðum yðar, hvorki úr fuglum né fénaði.
Hver sá, er nokkurs blóðs neytir, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni."
Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Tala til Ísraelsmanna og seg: Sá sem færir Drottni heillafórn skal sjálfur fram bera fórnargjöf sína fyrir Drottin af heillafórninni.
Með sínum eigin höndum skal hann fram bera eldfórnir Drottins: Mörinn ásamt bringunni skal hann fram bera, bringuna til þess að veifa henni sem veififórn frammi fyrir Drottni,
og skal presturinn brenna mörinn á altarinu, en bringuna skal Aron og synir hans fá.
Og af heillafórnum yðar skuluð þér gefa prestinum hægra lærið að fórnargjöf.
Sá af sonum Arons, er fram ber blóðið úr heillafórninni og mörinn, skal fá hægra lærið í sinn hluta.
Því að bringuna, sem veifa skal, og lærið, sem fórna skal, hefi ég tekið af Ísraelsmönnum, af heillafórnum þeirra, og gefið það Aroni presti og sonum hans. Er það ævinleg skyldugreiðsla, sem á Ísraelsmönnum hvílir.
Þetta er hluti Arons og hluti sona hans af eldfórnum Drottins, á þeim degi, sem hann leiddi þá fram til þess að þjóna Drottni í prestsembætti,
sem Drottinn bauð að Ísraelsmenn skyldu greiða þeim, á þeim degi, sem hann smurði þá. Er það ævinleg skyldugreiðsla hjá þeim frá kyni til kyns."
Þetta eru ákvæðin um brennifórnir, matfórnir, syndafórnir, sektarfórnir, vígslufórnir og heillafórnir,
sem Drottinn setti Móse á Sínaífjalli, þá er hann bauð Ísraelsmönnum, að þeir skyldu færa Drottni fórnargjafir sínar í Sínaí-eyðimörk.

8

Drottinn talaði við Móse og sagði:
"Tak Aron og sonu hans með honum, klæðin og smurningarolíuna, syndafórnaruxann, báða hrútana og körfuna með ósýrðu brauðunum
og stefn þú saman öllum söfnuðinum við dyr samfundatjaldsins."
Og Móse gjörði eins og Drottinn bauð honum, og söfnuðurinn kom saman við dyr samfundatjaldsins.
Móse sagði við söfnuðinn: "Þetta er það sem Drottinn hefir boðið að gjöra."
Því næst leiddi Móse fram Aron og sonu hans og þvoði þá í vatni.
Og hann lagði yfir hann kyrtilinn, gyrti hann beltinu og færði hann í möttulinn, lagði yfir hann hökulinn og gyrti hann hökullindanum og batt hann þannig að honum.
Þá festi hann á hann brjóstskjöldinn og lét úrím og túmmím í brjóstskjöldinn.
Og hann setti vefjarhöttinn á höfuð honum, og framan á vefjarhöttinn setti hann gullspöngina, ennishlaðið helga, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
Móse tók smurningarolíuna og smurði tjaldbúðina og allt, sem í henni var, og helgaði það.
Og hann stökkti henni sjö sinnum á altarið og smurði altarið og öll áhöld þess, svo og kerið og stétt þess, til að helga það.
Því næst hellti hann smurningarolíu á höfuð Aroni og smurði hann til þess að helga hann.
Síðan leiddi Móse fram sonu Arons, færði þá í kyrtla, gyrti þá belti og batt á þá höfuðdúka, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
Þá leiddi hann fram syndafórnaruxann, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð syndafórnaruxans.
En Móse slátraði honum, tók blóðið og reið því með fingri sínum á horn altarisins allt í kring og syndhreinsaði altarið, en því, sem eftir var af blóðinu, hellti hann niður við altarið, og hann helgaði það með því að friðþægja fyrir það.
Því næst tók hann allan innýflamörinn, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn, og Móse brenndi það á altarinu.
En uxann sjálfan, bæði húðina af honum, kjötið og gorið, brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
Því næst leiddi hann fram brennifórnarhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins.
Síðan slátraði Móse honum og stökkti blóðinu allt um kring á altarið.
Og hann hlutaði hrútinn sundur, og Móse brenndi höfuðið, stykkin og mörinn.
En innýflin og fæturna þvoði hann í vatni. Síðan brenndi Móse allan hrútinn á altarinu. Það var brennifórn þægilegs ilms, það var eldfórn Drottni til handa, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
Þessu næst leiddi hann fram hinn hrútinn, vígsluhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins.
Og Móse slátraði honum og tók nokkuð af blóði hans og reið því á hægri eyrnasnepil Arons, á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans.
Þá leiddi Móse fram sonu Arons og reið nokkru af blóðinu á hægri eyrnasnepil þeirra og á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra. Og Móse stökkti blóðinu allt um kring á altarið.
Og hann tók mörinn: rófuna, allan innýflamörinn, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið.
Sömuleiðis tók hann úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stóð frammi fyrir Drottni, eina ósýrða köku og eina olíuköku og eitt flatbrauð og lagði það ofan á mörinn og hægra lærið.
Og hann lagði það allt í hendur Aroni og í hendur sonum hans og veifaði því til veififórnar frammi fyrir Drottni.
Síðan tók Móse það af höndum þeirra og brenndi það á altarinu ofan á brennifórninni. Það var vígslufórn til þægilegs ilms, það var eldfórn Drottni til handa.
Því næst tók Móse bringuna og veifaði henni til veififórnar frammi fyrir Drottni. Fékk Móse hana í sinn hluta af vígsluhrútnum, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
Og Móse tók nokkuð af smurningarolíunni og nokkuð af blóðinu, sem var á altarinu, og stökkti því á Aron og klæði hans, og á sonu hans og á klæði sona hans ásamt honum. Og hann helgaði Aron og klæði hans, og sonu hans og klæði sona hans ásamt honum.
Og Móse sagði við Aron og sonu hans: "Sjóðið kjötið fyrir dyrum samfundatjaldsins og etið það þar ásamt brauðinu, sem er í vígslufórnarkörfunni, svo sem ég bauð, er ég sagði: ,Aron og synir hans skulu eta það.'
En leifarnar af kjötinu og brauðinu skuluð þér brenna í eldi.
Og sjö daga skuluð þér ekki ganga burt frá dyrum samfundatjaldsins, uns vígsludagar yðar eru á enda, því að sjö daga skal fylla hendur yðar.
Svo sem gjört hefir verið í dag hefir Drottinn boðið að gjöra til þess að friðþægja fyrir yður.
Og við dyr samfundatjaldsins skuluð þér vera sjö daga, bæði dag og nótt, og varðveita boðorð Drottins, svo að þér deyið ekki, því að svo hefir mér verið boðið."
Og Aron og synir hans gjörðu allt það, sem Drottinn hafði boðið og Móse flutt þeim.

9

Á áttunda degi kallaði Móse fyrir sig Aron og sonu hans og öldunga Ísraels
og sagði við Aron: "Tak þér nautkálf í syndafórn og hrút í brennifórn, gallalausa, og leið þá fram fyrir Drottin.
En til Ísraelsmanna skalt þú tala á þessa leið: ,Takið geithafur í syndafórn, og kálf og sauðkind, bæði veturgömul og gallalaus, í brennifórn,
og uxa og hrút í heillafórn, til þess að slátra þeim frammi fyrir Drottni, og matfórn olíublandaða, því að í dag mun Drottinn birtast yður.'"
Og þeir færðu það, sem Móse hafði boðið, fram fyrir samfundatjaldið, og allur söfnuðurinn kom og nam staðar frammi fyrir Drottni.
Móse sagði: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið. Gjörið það, og mun dýrð Drottins birtast yður."
Því næst mælti Móse til Arons: "Gakk þú að altarinu og fórna syndafórn þinni og brennifórn þinni, og friðþæg þú fyrir þig og fyrir lýðinn. Fram ber því næst fórnargjöf lýðsins og friðþæg fyrir þá, svo sem Drottinn hefir boðið."
Aron gekk þá að altarinu og slátraði kálfinum, er honum var ætlaður til syndafórnar.
En synir Arons færðu honum blóðið, og hann drap fingri sínum í blóðið og reið því á horn altarisins, en hinu blóðinu hellti hann niður við altarið.
En mörinn, nýrun og stærra lifrarblaðið úr syndafórninni brenndi hann á altarinu, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
En kjötið og húðina brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar.
Síðan slátraði hann brennifórninni, og synir Arons réttu að honum blóðið, en hann stökkti því allt um kring á altarið.
Þeir réttu og að honum brennifórnina í stykkjum og höfuðið, og hann brenndi hana á altarinu.
Og hann þvoði innýflin og fæturna og brenndi á altarinu, ofan á brennifórninni.
Þá bar hann fram fórnargjöf lýðsins, tók hafurinn, sem ætlaður var lýðnum til syndafórnar, slátraði honum og færði hann í syndafórn, eins og kálfinn áður.
Hann fram bar og brennifórnina og fórnaði henni að réttum sið.
Og hann fram bar matfórnina, tók af henni hnefafylli sína og brenndi á altarinu auk morgun-brennifórnarinnar.
Því næst slátraði hann uxanum og hrútnum til heillafórnar fyrir lýðinn. En synir Arons réttu að honum blóðið, - en hann stökkti því allt í kring á altarið -,
svo og mörstykkin úr uxanum og af hrútnum rófuna, netjuna, sem hylur iðrin, nýrun og stærra lifrarblaðið.
Og þeir lögðu mörinn ofan á bringurnar, en hann brenndi mörinn á altarinu.
En bringunum og hægra lærinu veifaði Aron til veififórnar frammi fyrir Drottni, svo sem Móse hafði boðið.
Síðan hóf Aron upp hendur sínar yfir fólkið og blessaði það. Og hann sté niður, er hann hafði fórnað syndafórninni, brennifórninni og heillafórninni.
Móse og Aron gengu inn í samfundatjaldið, og er þeir komu út aftur, blessuðu þeir fólkið. Birtist þá dýrð Drottins öllum lýðnum.
Eldur gekk út frá Drottni og eyddi brennifórninni og mörnum á altarinu. En er allur lýðurinn sá þetta, hófu þeir upp fagnaðaróp og féllu fram á ásjónur sínar.

Rechtsinhaber*in
Multilingual Bible Corpus

Zitationsvorschlag für dieses Objekt
TextGrid Repository (2025). Icelandic Collection. Leviticus (Icelandic). Leviticus (Icelandic). Multilingual Parallel Bible Corpus. Multilingual Bible Corpus. https://hdl.handle.net/21.11113/0000-0016-9D65-6